Fíkniefni reyndust vera svínakjöt

mbl/Arnþór

Seinni partinn í dag var tilkynnt um fíkniefnaviðskipti á Smiðjuvegi. Lögregla stöðvaði viðkomandi nokkru síðar sem viðurkenndi fúslega að hafa átt í viðskiptum og framvísaði svínakjöti sem hann hafði keypt. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Rétt fyrir klukkan átta í kvöld var tilkynnt um þjófnað úr verslun á Skólavörðustíg þar sem aðili kom inn í verslunina, tók þrjár ullarpeysur og hljóp á brott. Málið er rannsókn að fram kemur í tilkynningu.

Um korter yfir sjö var tilkynnt um aðila sem ógnaði krökkum með loftbyssu við Foldaskóla en þegar lögregla kom á staðinn var engan að sjá með byssu á lofti. Málið er í rannsókn.

Þá féll ökumaður af mótorkrosshjóli við Hvaleyrarveg um sexleytið og hlaut meiðsli á handlegg. Hann var færður undir læknishendur til aðhlynningar.

Um níuleytið var svo tilkynnt um aðila sem beit annan við Smáratorg og er málið í rannsókn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert