Tímafrekt að koma jáeindaskanna í notkun

Jáeindaskanninn var gjöf frá Íslenskri erfðagreiningu.
Jáeindaskanninn var gjöf frá Íslenskri erfðagreiningu. mbl.is/Eggert

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, segir að misskilningshafi gætt í umræðunni um nýjan jáeindaskanna, sem var nýleg tekið í notkun á spítalanum. „Einhverjar væntingar voru um að mögulega yrði hægt að taka skannann í notkun fyrr en reynslan sýnir að þetta er tímafrekt verkefni og gera má ráð fyrir að undirbúningur taki a.m.k. 3-4 ár.“

Þetta skrifar Páll í pistli sem er birtut á vef spítalans. 

Páll segir að skanninn, sem sé höfðingleg gjöf Íslenskrar erfðagreiningar til þjóðarinnar allrar, sé kærkomin viðbót við tækjakost spítalans og mikið framfaraskref í þjónustu við sjúklinga.

Stórt og flókið verkefni

„Nokkuð hefur verið rætt um framgang verkefnisins og þar hefur misskilnings gætt sem mikilvægt er að leiðrétta. Uppsetning flókins búnaðar og framleiðslutækni, sem jáeindaskanninn krefst, er stórt verkefni sem þrátt fyrir að tæknin sé ný hér á landi hefur gengið ágætlega og er nú í höfn, þremur árum eftir að hafist var handa við undirbúninginn.

Einhverjar væntingar voru um að mögulega yrði hægt að taka skannann í notkun fyrr en reynslan sýnir að þetta er tímafrekt verkefni og gera má ráð fyrir að undirbúningur taki a.m.k. 3-4 ár,“ skrifar Páll. 

Hann segir ennfremur, að þetta þekkist frá nágrannaþjóðunum og ágætt dæmi sé að nokkru áður en Landspítala barst gjöf Íslenskrar erfðagreiningar fyrir hönd þjóðarinnar árið 2015 fékk háskólasjúkrahúsið í Tromsö, sem að mörgu leyti sinnir áþekkum verkefnum og Landspítali, sambærilega gjöf.

„Þar hófust byggingarframkvæmdir um haustið en frændur okkar í Noregi gera ráð fyrir að framleiðsla eigin merkiefnis hefjist næsta vor, rúmum fjórum árum eftir að gjöfin var gefin og eru ekki gerðar athugsemdir við það.

Reynslan er svipuð af öðru verkefni í Þrándheimi. Við höfum með miklu færri, en afar einbeittum, starfsmönnum náð að ljúka þessu ferli talsvert fyrr og það ber að lofa,“ skrifar Páll. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert