Læknanemar bjóða upp á þjónustu fyrir bangsa

mbl.is/G. Rúnar

Bangsaspítali verður starfræktur á sunnudaginn í tilefni af alþjóðlega bangsadeginum. Öllum börnum, ásamt foreldrum og forráðamönnum, er boðið að koma í heimsókn með „veika eða slasaða bangsa“.

Tilgangur verkefnisins, sem Lýðheilsufélag læknanema stendur fyrir, er að fyrirbyggja hræðslu barna við lækna og heilbrigðisstarfsfólk auk þess að gefa læknanemum á yngri árum tækifæri til að æfa samskipti við börn. Bangsaspítalinn verður á þremur heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu: Í Efstaleiti, Grafarvogi og Sólvangi.

Bangsar innritaðir og þeim veitt aðhlynning

Heimsóknin fer þannig fram að hvert barn getur komið með sinn eigin bangsa á heilsugæsluna. Þegar þar er komið fær barnið að innrita bangsann og að því loknu kemur „bangsalæknir“ og vísar barninu inn á læknastofu þar sem læknanemi skoðar bangsann og veitir honum þá aðhlynningu sem hann þyrfti á að halda.

Lýðheilsufélag læknanema hvetur sem flesta til að koma á heilsugæslustöðvar í Efstaleiti, Grafarvogi og Sólvangi á sunnudag á milli 10 og 15. Nánari upplýsingar um viðburðinn má nálgast hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert