Traust til heilbrigðisyfirvalda beðið hnekki

Héraðsdómur felldi úr gildi synjun Sjúkratrygginga Íslands. Heilbrigðisráðherra mun ekki …
Héraðsdómur felldi úr gildi synjun Sjúkratrygginga Íslands. Heilbrigðisráðherra mun ekki áfrýja dómnum. mbl.is/Hjörtur

Þórarinn Guðnason, formaður Læknafélags Reykjavíkur, fagnar því að dómi Héraðsdóm Reykjavíkur í máli Ölmu Gunnarsdóttur verði ekki áfrýjað en telur engu að síður hættu á því að samningaviðræður verði í hnút þegar rammasamningur rennur út um áramótin.

Traust til heilbrigðisyfirvalda hefur beðið hnekki og sérfræðilæknar munu ekki vinna áfram eftir samningnum mánuð í senn eftir áramót. 

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sagði í þættinum Vikulokin á RÚV í morgun að ráðuneytið myndi ekki áfrýja dómi héraðsdóms þar sem ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að synja Ölmu Gunnarsdóttur um aðild að rammasamningnum var felld úr gildi.

„Það er fagnaðarefni ef ráðuneytið vill núna frekar eyða tíma í að vinna að framþróun heilbrigðiskerfisins í góðri sátt við þá sem vinna í kerfinu, sjúklingasamtök og þjóðina alla frekar en að kljást í dómsölum,“ segir Þórarinn í samtali við mbl.is.

Traust til heilbrigðisyfirvalda takmarkað

Hann fer þó ekki fram úr sjálfum sér í fögnuðinum enda telur hann ólíklegt að samningar náist áður en núgildandi samningur rennur út um áramótin.

„Þetta eru flóknar samningaviðræður sem geta tekið 6-8 mánuði. Þetta eru 24 sérgreinar og hundruð gjaldskrárliða sem þarf að fara yfir. Það þarf að tala um gæðamál og efndir. Hvernig yrði tryggt að það verði farið eftir næsta samningi og þrír mánuðir er of skammur tími til þess,“ segir hann og tekur fram að traust sérfræðilækna á heilbrigðisyfirvöldum hafi beðið nokkurn hnekki síðastliðin þrjú ár vegna ítrekaðra samnings- og lögbrota.

Hann segir því hætt við því að samningaviðræðum verði ekki lokið um áramótin og jafnvel hættu á því að allt verði í hnút þá og því verði sérfræðilæknar að halda áfram að undirbúa sig og sjúklinga undir það að starfa utan samnings, eins og þeir hafa gert frá því í júlí.

Munu ekki vinna mánuð í senn

Heimilt er að framlengja samninginn um mánuð í senn á meðan verið er að semja um nýjar lausnir. Þórarinn segir að sérfræðilæknar geti alls ekki tekið þátt í því fyrirkomulagi.

„Það er mjög mikil samstaða í læknahópnum að vinna ekki áfram mánuð í senn á þessum útrunna og þverbrotna samningi og það eru nú þegar 96% sérfræðilæknar búnir að veita læknafélaginu umboð til þess að semja fyrir sig,“ segir hann.

„Það er engin framtíð í því. Það er ekki hægt að reka læknastofu með með áætlun einn mánuð fram í tímann. Við þurfum að geta gefið sjúklingum tíma eftir þrjá mánuði, sex mánuði eða ár. Það er útilokað að reka læknastofu eftir samningi sem gildir einn mánuð í senn,“ bætir hann við.

Þórarinn segir að læknafélagið hafi tilkynnt Sjúkratryggingum Íslands um þessa afstöðu í sumar og á fundi með ráðherra í júlí hafi félagið sagt að ekki væri sjálfgefið að vinna áfram eftir samningnum eftir áramót. Því ætti afstaðan ekki að koma ráðherra á óvart.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Funda með ráðherra á mánudag

Læknafélagið mun funda með heilbrigðisráðherra á mánudag og vonast Þórarinn til þess að þar verði lagðar línur um framhaldið í góðu samráði við sérfræðilækna. Varðandi hvað gerist ef samningar takist ekki og að þjónusta verði ekki niðurgreidd eftir áramót segir Þórarinn:

„Þá geta sjúklingar þurft að greiða reikning læknisins að fullu og kanna svo rétt sinn til að frá endurgreiðslu frá heilbrigðisyfirvöldum sem bera ábyrgð á sjúkratryggingum landsmanna. Það verða 10 þúsund sjúklingar á viku sem mæta þá í sjúkratryggingastofnun og óska eftir endurgreiðslu. Samningurinn er umfangsmikill, þetta eru um 500 þúsund komur á ári. Það er eins og ýmsir aðilar innan kerfisins geri sér ekki grein fyrir hvað það umgang er gríðarlegt.“

Á þriðjudag mun Læknafélag Reykjavíkur svo halda fund með þeim 330 læknum sem eru á samningi í dag og fara yfir stöðuna. Þórarinn reiknar með að félagið muni eftir þann fund tilkynna að það hafi umboð frá öllum þessum læknum til að semja fyrir þeirra hönd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert