Íbúum Flateyrar fjölgar um 30 prósent

30 nemendur, sem valdir voru úr hópi 50 umsækjenda, munu …
30 nemendur, sem valdir voru úr hópi 50 umsækjenda, munu stunda nám við skólann þetta fyrsta skólaár.

Rúmlega 300 manns voru viðstaddir þegar Lýðháskólinn á Flateyri var settur í fyrsta sinn í íþróttahúsi bæjarins á laugardag, að viðstöddum forseta Íslands. Af því tilefni héldu Flateyringar bæjarhátíð með tónlist, upplestri og kvikmyndasýningum auk þess sem opin hús voru víða um bæinn þar sem starfsemi stofnana og fyrirtækja var kynnt.

Í tilkynningu segir að skólinn sé fullsetinn þetta fyrsta skólaár en 30 nemendur, sem valdir voru úr hópi 50 umsækjenda, munu stunda þar nám. Nemendum fylgi starfsfólk, makar og börn, alls á fimmta tug nýrra íbúa á Flateyri. Fjölgar íbúum bæjarins þar með um 30 prósent. 

Kennt er í tveimur deildum. Í Hafið, fjöllin og þú er lögð er áhersla á að nýta þær auðlindir sem til staðar eru í náttúru, menningu og samfélagi á Flateyri og að gera nemendur færari í að ferðast um í náttúrunni, njóta hennar og nýta sér auðlindir hennar á öruggan og umhverfisvænan máta. 

Í Hugmyndir, heimurinn og þú er lögð áhersla á listræna hugmyndavinnu, sköpun og útfærslu í hvers kyns formum, auk tjáningar og miðlunar. Þannig öðlast nemendur færni í heimildaöflun, markvissri hugmyndavinnu og sköpun auk miðlunar til samfélagsins.

Í tilefni skólasetningar héldu Flateyringar bæjarhátíð með tónlist, upplestri og …
Í tilefni skólasetningar héldu Flateyringar bæjarhátíð með tónlist, upplestri og kvikmyndasýningum auk þess sem opin hús voru víða um bæinn þar sem starfsemi stofnana og fyrirtækja var kynnt.

Skólinn byggir á norrænum lýðháskólahefðum og hefur fólk frelsi til menntunar á einstaklingsbundnum forsendum. Því byggir skólinn ekki á prófum, einkunnum eða gráðum, heldur skapar hann nemendum sínum aðstæður og umgjörð til náms og menntunar. Ábyrgð á náminu er nemandans þar sem megináherslan er á að uppgötva og styrkja þá einstöku hæfileika sem hver og einn hefur í umhverfi sem er fullt af áskorunum en um leið ríkt af stuðningi, endurgjöf og samvinnu.

Lýðháskólinn á Flateyri er þetta fyrsta skólaár að öllu leyti rekinn fyrir sjálfsaflafé og hafa fyrirtæki, stofnanir, sveitarfélög, sjóðir og félagasamtök af ýmsu tagi stutt við bakið á stofnun og rekstri skólans með styrkjum og framlögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert