Ákærður fyrir að hrista son sinn

Héraðssaksóknari gaf út ákæru í málinu.
Héraðssaksóknari gaf út ákæru í málinu. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Embætti héraðssaksóknara hefur ákært karlmann fyrir að hafa á alvarlegan hátt ógnað lífi, heilsu og velferð sonar síns með því að hafa tekið um háls og/eða brjóstkassa drengsins og hrist hann. Hlaut sonurinn meðal annars blæðingu á heila og blóðsöfnun þar auk punktblæðingar í augnbotni.

Fram kemur í ákæru málsins að drengurinn hafi hlotið mar miðlægt yfir hægra viðbein vinstra megin á hálsi og rétt ofan viðbeins. Þá hafi hann fengið eymsli aftan á brjóstkassa, klórsár á hálsi, innanbastblæðingu á um fimm sentímetra svæði í framhluta heilans og væga blóðsöfnun yfir hnykiltjaldi. Einnig hafi drengurinn fengið innanbastblæðingu á hvirfilblaði og punktblæðingar í augnbotni og verulega blæðingu inn á nethimnu.

Eru brot mannsins sögð varða 1. og 2. mgr. 218. gr. b. almennra hegningarlaga, en þar er meðal annars kveðið á um brot gegn fjölskyldu. Samkvæmt fyrri málsgreininni getur brot varðað allt að sex ára fangelsi, en samkvæmt þeirri seinni, þar sem tekið er fram að um stórfellt brot sé að ræða, getur það varðað allt að 16 ára fangelsi.

Þá fer forsjáraðili drengsins fram á 2,5 milljónir í skaðabætur fyrir hönd drengsins í einkaréttarkröfu í málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert