Engin kostnaðaráætlun lá fyrir

Frá hátíðarfundinum á Þingvöllum.
Frá hátíðarfundinum á Þingvöllum. mbl.is/​Hari

Kostnaður vegna hátíðarfundar Alþingis á Þingvöllum í sumar lá ekki fyrir fyrr en ljóst var hvaða tilboði vegna hennar yrði tekið. Þetta kemur fram í minnisblaði frá skrifstofu Alþingis til Steingríms J. Sigfússonar, forseta þingsins, sem birt hefur verið á vef þess. Þar segir að þess misskilnings hafi gætt að kostnaðaráætlun hafi hljóðað upp á 45 milljónir króna. Þar hafi aðeins verið um að ræða fjármuni sem teknir hafi verið frá vegna verkefnisins en gert hafi verið ráð fyrir því að kostnaðurinn gæti orðið meiri þegar línur skýrðust.

„Framan af undirbúningnum var á litlu öðru að byggja varðandi kostnað við þingfundinn en uppreiknuðum kostnaði við fyrri hátíðarfundi Alþingis á Þingvöllum, að teknu tilliti til þess að á þeim hátíðum var þingfundurinn aðeins hluti af viðameiri dagskrá þjóðhátíðar á Þingvöllum. Við gerð rekstraráætlunar Alþingis fyrir árið 2018 var ákveðið að taka frá 45 milljónir króna til verksins en að öðru leyti reiknað með að greiða kostnað með rekstrarfjárveitingum og höfuðstól. Hér var því ekki um eiginlega kostnaðaráætlun að ræða, enda ekki forsendur til þess, en nokkurs misskilnings hefur gætt um þetta í umræðunni.“

Talsverð óvissa hafi þannig verið um ýmsa kostnaðarliði á þeim tímapunkti. Enn fremur kemur fram að kostnaður vegna hátíðarfundarins, sem var ríflega 80 milljónir, hafi meðal annars skýrst af þeirri staðreynd að Þingvellir séu á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna og helgur staður þjóðarinnar og fyrir vikið hafi þurft að vernda svæðið sem mest. Þá hafi einnig þurft að gæta að umhverfissjónarmiðum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert