Svindl Rússa á sturluðum mælikvarða

Birgir Sverrisson, framkvæmdastjóri Lyfjaeftirlits Íslands.
Birgir Sverrisson, framkvæmdastjóri Lyfjaeftirlits Íslands.

Þetta er í stuttu máli óásættanleg niðurstaða. Okkar starf snýst um að vernda hreint íþróttafólk og reyna að stuðla að hreinum íþróttum,“ segir Birgir Sverrisson, framkvæmdastjóri Lyfjaeftirlits Íslands, í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is um þá ákvörðun Alþjóðalyfjaeftirlitsstofnunarinnar (WADA) að viðurkenna á ný rússneska lyfjaeftirlitið, RUSADA.

Hann segir WADA hafa gefið eftir í málinu, sennilega vegna hagsmunaárekstra innan stjórnar stofnunarinnar, og að það sýni „mjög slæmt fordæmi“.

Stjórn Lyfjaeftirlits Íslands hefur ekki enn komið saman og rætt málið formlega og því talar Birgir ekki fyrir hönd Lyfjaeftirlitsins í heild sinni, en hann segist hafa rætt við formann stjórnarinnar og fleiri nefndarmenn sem séu „sammála um að þessi ákvörðun sem var tekin er ekki í samræmi við grunngildi okkar sem störfum við lyfjaeftirlit“.

Ekki stendur þó til að Lyfjaeftirlit Íslands sendi frá sér opinbera yfirlýsingu vegna ákvörðunar WADA á þessum tímapunkti.

„Það svindl sem átti sér stað í Rússlandi var á það sturluðum mælikvarða og það langt gengið að fólk sem ég tala við stundum gleymir því eða áttar sig hreinlega ekki á hversu súrrealískt það var. Margt hreint íþróttafólk sem hefur lagt allt undir á sínum ferli missti af sínum augnablikum vegna þess að það var svindlað á því af öðrum einstaklingum. Vinnan okkar snýst meðal annars um að reyna að koma í veg fyrir að slíkt komi fyrir, og þá í rauntíma, en þegar lyfjamisferli er ríkisstyrkt og kemur í ljós löngu síðar eins og líkur eru því miður á, þá er tjónið óbætanlegt og lágmarkskrafan er sú að aðilar uppfylli skilyrðin sem þeir gengust undir eftir að upp um það komst,“ segir Birgir.

Vilji íþróttafólks að brugðist yrði harðar við

„Enginn íþróttamaður eða -kona hefur kosningarétt í framkvæmdastjórn WADA en það var klárlega vilji meirihluta íþróttafólks að WADA myndi bregðast hart, og jafnvel harðar við þessum brotum sem áttu sér stað. Með þessari ákvörðun er ekki verið að vernda hreina íþróttamenn,“ segir Birgir í svari sínu.

Frá fundi framkvæmdastjórnar WADA á Seychelles-eyjum fyrr í mánuðinum. Þar …
Frá fundi framkvæmdastjórnar WADA á Seychelles-eyjum fyrr í mánuðinum. Þar var tekin sú ákvörðun að aflétta banni á hendur RUSADA, rússneska lyfjaeftirlitinu. AFP

Fyrr á árinu var Lyfjaeftirlit Íslands stofnað formlega sem sjálfseignarstofnun, en áður var lyfjaeftirlit deild innan Íþrótta- og ólympíusambands Íslands, ÍSÍ. Það var gert til að reyna að útiloka hagsmunaárekstra og gera eftirlitið sjálfstæðara, í samræmi við kröfur WADA, IOC og fleiri aðila.

Ákvörðun WADA um að viðurkenna rússneska lyfjaeftirlitið á nýjan leik eftir að upp komst upp um stórfelld svik þess með blessun og stuðningi rússneskra yfirvalda er sem áður segir óásættanleg að mati Birgis, sem reiknar að málinu sé hvergi nærri lokið og að áhrifamestu aðilarnir innan Alþjóðalyfjaeftirlitsstofnunarinnar láti í sér heyra.

„Ég reikna með að þau NADOs [sjálfstæð lyfjaeftirlit einstakra ríkja] sem vega þyngst muni setja mikla pressu á WADA og IOC að breyta sínum strúktúr hvað varðar „anti-doping“. Réttindi íþróttafólks verða í forgrunni í næstu alþjóðalyfjareglum (WADA Code) sem verða samþykkt næsta haust og taka gildi 2021,“ segir Birgir.

Vantar festu og stöðugleika í ákvarðanir

Ákvörðun WADA kom honum þó „ekki mjög mikið á óvart“ en Birgir var búinn að spá því við kollega sína í fyrra að WADA myndi gefa grænt ljós á rússneska eftirlitið aftur áður en öll skilyrði yrðu uppfyllt.

„Mér fannst það samt einhvern veginn langsótt sökum fjaðrafoksins sem yrði í kjölfarið,“ segir Birgir, en það fjaðrafok er í gangi núna. Fjölmargir iþróttamenn og aðrir aðilar innan íþróttaheimsins hafa gagnrýnt ákvörðun WADA um að gefa RUSADA grænt ljós á nýjan leik.

Höfuðstöðvar RUSADA í Moskvu.
Höfuðstöðvar RUSADA í Moskvu. AFP

Birgir viðurkennir að staða málsins hafi verið mjög snúin, en að WADA hafi verið sá aðili sem ekki mátti gefa eftir í því.

„Það þarf meiri stöðugleika og festu í ákvarðanir þessara aðila,“ segir Birgir og nefnir að ekkert samræmi hafi verið í ákvörðunum Alþjóðaólympíunefndarinnar varðandi ÓL í Ríó. Að mati Birgis var það algjört klúður að leyfa rússneskum íþróttamönnum að taka þátt það árið.

„Megnið af gögnunum sem eru til í þessu máli voru á borðinu þá. Ef þú lest ólympíusáttmálann þá voru þær ákvarðanir engan veginn í samræmi við fyrstu greinarnar í honum,“ segir Birgir, en bætir við að viðbrögð Alþjóðanefndar ólympíumóts fatlaðra (IPC) og Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins (IAAF) við svindli Rússa hafi verið rétt að hans mati.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert