VÍS endurskoði lokanir útibúa

VÍS tilkynnti um áætlanir sínar í síðustu viku, en samkvæmt …
VÍS tilkynnti um áætlanir sínar í síðustu viku, en samkvæmt þeim á að loka tveimur þjónustuskrifstofum á landsbyggðinni og sameina aðrar sex í stærri einingar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Landssamband íslenskra verzlunarmanna (LÍV) harmar þá ákvörðun VÍS að loka átta þjónustuskrifstofum sínum á landsbyggðinni og gerir kröfu um að hún verði endurskoðuð. Þetta kemur fram í ályktun sem sambandið sendi frá sér um helgina.

Athugasemd er gerð við að aðgerðirnar bitni fyrst og fremst á landsbyggðinni, og að fjöldi einstaklinga missi með þessu vinnu sína eða þurfi að sækja vinnu landsvæða á milli.

LÍV segir að verði ákvörðunin ekki endurskoðuð megi gera ráð fyrir að margir muni leita annað með viðskipti sín.

VÍS tilkynnti um áætlanir sínar í síðustu viku, en samkvæmt þeim á að loka tveimur þjónustuskrifstofum á landsbyggðinni og sameina aðrar sex í stærri einingar, að því er segir vegna endurskipulagningar og einföldunar þjónustufyrirkomulags.

Talsverðrar óánægju gætir vegna fyrirætlananna, en Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, greindi frá því á Facebook-síðu sinni að hann og kona hans hygðust endurskoða viðskipti sín við tryggingafélagið.

Þá ályktaði Haustþing Sambands sveitarfélaga á Vesturlandi sem svo að áætlanir VÍS væru gríðarleg vonbrigði. „Þessi ákvörðun er óásættanleg fyrir viðskiptavini og starfsfólk VÍS á svæðinu sem margir hverjir hafa verið í áratugi í viðskiptum og störfum við og fyrir félagið. Skorað er á sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklinga á svæðinu að bregðast við þessari ákvörðun VÍS með því að endurskoða viðskipti sín við fyrirtækið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert