Enginn hefur talað við Áslaugu

Áslaug Thelma Einarsdóttir var rekin fyrir rúmum tveimur vikum.
Áslaug Thelma Einarsdóttir var rekin fyrir rúmum tveimur vikum. Ljósmynd/Aðsend

Í dag erum við á sextánda degi frá því að Áslaug Thelma var rekin frá ON. Ennþá hefur hún ekki fengið skýringar á því af hverjum henni var sagt upp.“ Þannig hefst Facebook-færsla Einars Bárðarsonar en eiginkona hans var rekin frá Orku náttúrunnar fyrir rúmum tveimur vikum.

Eftir að Áslaugu var sagt upp var Bjarni Már Júlíusson, framkvæmdastjóri ON, rekinn. Á fimmtu­dags­kvöld féllst stjórn Orku­veit­unn­ar á þá ósk Bjarna Bjarna­son­ar, for­stjóra fyr­ir­tæk­is­ins, að víkja úr for­stjóra­stóli á meðan óháð út­tekt verður gerð á vinnustaðamenn­ingu og mál­efn­um til­tek­inna starfs­manna, sem hafa verið til um­fjöll­un­ar upp á síðkastið.

Einar skrifar á Facebook að framtíð og framfærsla lítillar fjölskyldu sé sett í fullkomna óvissu á engum réttlætanlegum forsendum. „Þar sem Áslaug vann sér til sakar var að tilkynna margoft í yfir 18 mánaða tímabil óviðeigandi framkomu, áreiti og eineltistilburði. En auðvitað "óformlega" eins og starfsmannastjórinn hefur bent á  (broskarl til merkis um kaldhæðni),“ skrifar Einar.

Einar bendir á að nýr forstjóri, Helga Jónsdóttir, hafi látið hafa eftir sér í fjölmiðlum fyrir helgi að hún ætlaði að heyra í Áslaugu hið fyrsta. „Nú er nýr forstjóri kominn til vinnu og haft var eftir henni í fréttum í gærkvöldi og blöðum í morgun að það væri ásetningur hennar að reyna að ná í Áslaugu Thelmu fyrir helgi.

Honum virðist sem það hafi dottið neðar á forgangslistann hjá nýja forstjóranum að heyra frá Áslaugu. „En svo því sé haldið til haga þá hefur engin [sic] frá ON/OR talað við hana ennþá eftir að þessi atburðarás komst upp á yfirborðið og ON og OR neyddust til að fara að vinna eftir gildum sínum og loforðum,“ skrifar Einar og bendir á að nýi forstjórinn verði að hafa hraðar hendur:

Það er kannski einhverskonar svartur húmor hins nýja forstjóra eða kannski hefur hún bara í raun EKKERT kynnt sér mál Áslaugar ... EN EINMITT um helgina LOKAR OR/ON símanum hennar Áslaugar þannig að nú verður spennandi sjá hvort þeim tekst að ná í hana fyrir þann tíma.“

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert