Landsréttur mildaði nauðgunardóm

Maðurinn var dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir …
Maðurinn var dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir nauðgunina, en með því mildaði Landsréttur dóm héraðsdóms um hálft ár. mbl.is/Hjörtur

Landsréttur mildaði í síðustu viku dóm héraðsdóms yfir 28 ára karlmanni, Kristófer John Unnsteinssyni, sem dæmdur hafði verið í þriggja ára fangelsi fyrir að nauðga stúlku eftir starfsmannafögnuð á vinnustað þeirra árið 2015. Var stúlkan þá 17 ára og maðurinn 24 ára. Segir í dómi Landsréttar að 22 mánuðir hafi liðið frá nauðguninni og þangað til ákæra var gefin út og er sú töf metin manninum til refsilækkunar. Er dómurinn mildaður í tvö og hálft ár.

Var maðurinn dæmdur fyrir að hafa nauðgað stúlkunni í aftursæti bifreiðar eftir árshátíð vinnustaðar þeirra í janúar 2015. Var framburður þeirra beggja stöðugur fyrir dómi um málsatvik, en þau greindi á um hvort samþykki hafi legið fyrir. Segir í dóminum að stúlkan hafi strax eftir verknaðinn haft samband við fjóra einstaklinga og sagt þeim að sér hafi verið nauðgað. Þá var hún í miklu uppnámi og greindi tveimur af vitnunum frá því að hún hefði gefið Kristófer til kynna að hún væri mótfallin samförum við hann.

Læknir og hjúkrunarfræðingar á neyðarmóttöku greindu einnig frá því að stúlkan hafi sagt þar að hún hafi margsagt Kristófer að hún vildi þetta ekki. Féllst héraðsdómur sem og Landsréttur á í ljósi þessa og atvika málsins að framburður hennar væri trúverðugur og var Kristófer dæmdur í þriggja ára fangelsi í héraðsdómi. Landsréttur mildaði hins vegar dóminn og vísaði þar til fyrrnefndra tafa við málið. Var hann dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi. Þá staðfesti Landsréttur dóm um einkaréttarkröfu stúlkunnar og var Kristófer gert að greiða henni 2 milljónir króna í bætur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert