Leigan 190 þúsund á mánuði

Mun ódýrara að kaupa íbúð hér heldur en annars staðar …
Mun ódýrara að kaupa íbúð hér heldur en annars staðar á Norðurlöndum en leigan í miðbænum afar há. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Miðsvæðis í Reykjavík leigist tveggja herbergja íbúð á um 190.000 kr. á mánuði að meðaltali. Hvergi á Norðurlöndunum er að finna jafnhátt leiguverð í höfuðborg og hér á landi. Aftur á móti er húsnæðisverð í Reykjavík lægra en í flestum höfuðborgum Norðurlandanna. Þetta kemur fram í nýrri greiningu frá leigumarkaðsdeild Íbúðalánasjóðs um íbúðar- og leiguverð í höfuðborgum Norðurlandanna.

Leiguverðið er hæst í Reykjavík, bæði í miðborg og utan miðborgarinnar, hvort sem horft er til tveggja eða fjögurra herbergja íbúða. Miðsvæðis í Reykjavík er leiga fyrir tveggja herbergja íbúð um 188.000 kr. á mánuði. Á eftir Reykjavík reynist leiguverð tveggja herbergja íbúðar miðsvæðis vera hæst í Kaupmannahöfn eða um 164.000 íslenskar krónur á mánuði að meðaltali. Lægst er leiga slíkrar íbúðar í Þórshöfn á um 110.000 kr. á mánuði.

Það sama á við um tveggja herbergja íbúðir utan miðborgar. Þar er leiguverðið hæst í Reykjavík, eða rúmlega 150.000 kr., en á eftir Reykjavík er hæsta leiguverð slíkrar íbúðar í Ósló þar sem það er um 122.000 kr. Fjögurra herbergja íbúðir eru einnig dýrastar í Reykjavík, hvort sem horft er til meðalíbúðar í miðborginni eða utan miðborgar. Í miðborginni leigist slík íbúð á tæplega 300.000 kr. á mánuði. Á eftir Reykjavík er leiguverð fjögurra herbergja íbúðar hæst í miðborg Kaupmannahafnar eða á tæplega 290.000 kr.

Hagstætt að kaupa á Íslandi

Í skýrslunni kemur fram að íbúðaverð í Reykjavík sé lágt í hlutfalli við tekjur miðað við höfuðborgir annarra landa. Hlutfallslega lágt húsnæðisverð á móti háu leiguverði gerir það að verkum að hagstæðara er fyrir fólk að kaupa. Á móti þessu kemur að hátt leiguverð gerir leigjendum erfiðara fyrir að safna sér upp í þá útborgun sem þarf fyrir íbúð. 

Sé íbúðaverð í Reykjavík borið saman við íbúðaverð í höfuðborgum nágrannalanda okkar sést að það sker sig úr en aðeins í Þórshöfn er íbúðaverð lægra en í Reykjavík. Hæst er kaupverð íbúða í miðborg Stokkhólms en þar selst fermetrinn á yfir 1,1 milljón íslenskra króna. Fermetraverð utan miðborgar Stokkhólms er þó töluvert lægra eða um 663.000 kr.

Á eftir Stokkhólmi mælist verðið hæst í Ósló en þar er verð á hvern fermetra í miðborginni örlítið lægra en í miðborg Stokkhólms eða um 960.000 kr.

Lægsta fermetraverðið er að finna í Þórshöfn en þar seljast íbúðir miðsvæðis á tæplega 359.000 kr. á hvern fermetra en 263.000 kr. utan þess. Eins og áður sagði er næstlægsta fermetraverðið í Reykjavík en íbúðir miðsvæðis þar seljast á um 542.000 kr. á hvern fermetra.

Vextir hærri hér 

„Þegar þessar tölur eru túlkaðar ber þó að hafa í huga að vaxtakostnaður er ekki tekinn með í myndina en vextir eru talsvert hærri hér á landi en þekkist í nágrannalöndum okkar.

Vextir, ásamt fasteignaverði, segja til um fjárhæðina sem húsnæðiseigendur koma til með að greiða mánaðarlega sé húsnæðið fjármagnað með lánsfé. Því hærri sem vextirnir eru, því hærri er fjárhæðin, en á sama tíma er fjárhæðin lægri eftir því sem fasteignaverð er lægra á kaupdegi.

Greiningu þessari á húsnæðisverði og samanburði þess við önnur lönd ber að taka með þeim fyrirvara að ekki eru allir þættir sem fylgja kostnaði við eignarhald og rekstur íbúða teknir með. Greiningin gefur engu að síður góða mynd af stöðu húsnæðismála hér á landi samanborið við nágrannalönd okkar,“ segir í skýrslunni.

Hvergi jafnhátt hlutfall ungs fólks í foreldrahúsum

Hátt leiguverð en hlutfallslega lágt húsnæðisverð kann að vera skýringin á háu hlutfalli ungs fólks í foreldrahúsum, en hvergi á Norðurlöndunum er hlutfallið jafnhátt og hér á landi. Um 14% fólks á aldrinum 25-34 ára hér á landi býr í foreldrahúsum á meðan hlutfallið er innan við 6% víðast hvar annars staðar á Norðurlöndunum.

„Hátt leiguverð hér á landi veldur því að leigjendur eiga erfitt með að safna sér fyrir útborgun og þannig komast af leigumarkaði og í eigið húsnæði. Gögn frá Eurostat sýna að hvergi á Norðurlöndunum er hlutfallið af ungu fólki á aldrinum 25–34 ára sem býr í foreldrahúsum jafnhátt og hér á landi og má leiða að því líkur að óhagstæður leigumarkaður kunni að vera hluti af ástæðunni fyrir því.

Í könnun sem leigumarkaðsdeild Íbúðalánasjóðs lét gera og birtist í mánaðarskýrslu júlímánaðar voru húsnæðiseigendur spurðir hvenær þeir keyptu sína fyrstu íbúð, á hvaða aldri þeir voru og hvort þeir hefðu fengið fjárhagsaðstoð frá vinum eða fjölskyldu.

Í ljós kom að fyrstu kaupendur eru að verða eldri að meðaltali og þiggja í auknum mæli aðstoð frá vinum og vandamönnum. Á níunda áratugnum var yfir helmingur fyrstu kaupenda 25 ára eða yngri en til samanburðar eru einungis 28% þeirra sem keyptu sína fyrstu íbúð eftir 2010 á þeim aldri. 60% fyrstu kaupenda frá árinu 2010 þiggja hjálp frá ættingjum og vinum en á níunda áratugnum þáðu ekki nema 35% slíka aðstoð,“ segir í skýrslu Íbúðalánasjóðs.

Hér er hægt að lesa skýrsluna í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert