Þingmenn kalla eftir þjóðarsátt gegn ópíóðafaraldri

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, hóf máls á vandanum.
Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, hóf máls á vandanum. mb.is/Kristinn Magnússon

Mikilvægt er að Alþingi Íslendinga taki höndum saman til að stemma stigu við ópíóðafaraldri á Íslandi. Þetta kom fram í máli Þorsteins Sæmundssonar, þingmanns Miðflokksins, í sérstakri umræðu um ópíóðafaraldur og aðgerðir til að stemma stigu við faraldrinum. Hvatti hann í ræðu sinni Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra til dáða í aðgerðum gegn ópíóðavandanum og kvaðst viss um að hún fái þann stuðning frá þinginu sem hún þurfi til að vinna á vandanum.

Mbl.is greindi frá því í ágúst sl. að embætti landslæknis hafði fram í miðjan júní 29 dauðsföll til rannsóknar þar sem grunur leikur á að lyf hafi komið við sögu. Sagði verkefnisstjóri lyfjamála hjá embætti landlæknis það vekja athygli að matsgerðum hafi fjölgað mjög; tilfellin hafi verið 32 allt árið í fyrra samanborið við 29 á fyrri helmingi þessa árs, meðalaldur sé að lækka og margir einstaklingar sem hafa tekið talsvert af lyfjum stuttu fyrir andlát hafa ekki fengið þeim ávísað.

Embætti land­lækn­is hef­ur varað við ávana­bind­andi lyfj­um. Sterk verkjalyf eru …
Embætti land­lækn­is hef­ur varað við ávana­bind­andi lyfj­um. Sterk verkjalyf eru hættu­leg­ustu lyf­in. mbl.is/Golli

Efnt var til sérstakrar umræðu um ópíóðafaraldurinn á Alþingi í dag. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra þakkaði Þorsteini fyrir að hefja máls á umræðuefninu. Sagði hún að í byrjun ársins hafi verið skipaður starfshópur undir forystu Birgis Jakobssonar sem átti að fjalla um leiðir til að sporna gegn ofnotkun lyfseðilsskyldra lyfja.

Starfshópurinn skilaði af sér tillögum í níu liðum og miða þær að því að takmarka aðgang að ávanabindandi lyfjum, auka fræðslu hjá fagstéttum og almenningi, herða eftirlit með ávísanavenjum lækna, gera kröfur um bætta greiningu á ADHD, bæta aðgang að öðrum úrræðum en lyfjum við meðferð á ADHD, svefnvanda, kvíðaröskunum og langvinnum verkjum.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Þá mælist hópurinn til þess að gerð verði krafa um teymisnálgun við greiningu, meðferð og eftirfylgni sjúkdóma sem krefjast meðferðar með ávanabindandi lyfjum, að innleidd verði geðheilbrigðisáætlun og að lyfjanefnd Landspítalans verði styrkt og stofnuð lyfjanefnd innan heilsugæslunnar sem hafi það hlutverk að stuðla að góðum ávísunarvenjum lækna.

Svandís segir skýrt að ábyrgðin sé hjá sér

Svandís sagði að unnið væri að því að koma öllum tillögunum til framkvæmda. Þá hafi verið stofnaður stýrihópur sem var falið að skila tillögum til ráðherra um hvaða úrræði henti best fíklum með bráðavanda, hópnum er gert að skila af sér tillögum til ráðherra eigi síðar en 15. desember nk. Sagði Svandís miklu máli skipta að skýrt væri að ábyrgðin lægi hjá heilbrigðisráðherra, en félli ekki á milli tveggja ráðuneyta.

Þá sagði Svandís að unnið væri að uppbyggingu skaðaminnkandi úrræða og neyslurýma. Veitt hafi verið 50 milljónum króna til þess verkefnis á næsta ári í samstarfi við Reykjavíkurborg og Rauða kross Íslands. Þá sagði Svandís að hún hafi til jákvæðrar skoðunar að efla frekar starfsemi SÁÁ.

Stendur ekki til að loka meðferðarúrræðinu í Krýsuvík

Þingmenn úr öllum flokkum tóku til máls í umræðunni. Guðjón S. Brjánsson, þingmaður Samfylkingarinnar, benti á mikla lyfjanotkun á Íslandi samanborið við nágrannaríkin, Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, tók undir mikilvægi þess að efla meðferðarheimilin. Þar á meðal meðferðarúrræði í Krýsuvík sem er eina úrræðið þar sem fólk með fíkn getur dvalið til lengri tíma.

Svandís fullyrti að ekki standi til að loka meðferðarúrræðinu heldur sé verið að breyta skilgreiningu úrræðisins eftir tillögu frá embætti landlæknis að meðferðarúrræðið teldist ekki heilbrigðisúrræði. „Það er verið að kanna að reka áfram þjónustu sem félagslegt úrræði eða búsetuúrræði með stuðningi,“ sagði Svandís. „Fjármagn fylgir breyttri skilgreiningu, ég mun fylgja því eftir að það verði niðurstaðan, og það er sameiginleg niðurstaða okkar ráðherra velferðarmála,“ sagði hún og vísaði til Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og jafnréttismálaráðherra.

Vandamál vegna lyfja sem ávísað er erlendis og þau flutt árituð til landsins

Ólafur Þór Gunnarsson, læknir og þingmaður Vinstri grænna, benti á vandann sem fylgi því að fólk fái ávísað lyfjum erlendis sem flutt eru til landsins árituð. „Þarna er töluverður vandi á ferðum,“ sagði Ólafur. „Það er erfitt fyrir tollgæslu og aðra að bregðast við. Þarna þarf að eiga sér stað samtal heilbrigðisyfirvalda, ekki bara á Norðurlöndunum heldur um alla Evrópu til að reyna að stemma stigu við þessu.“ Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins, sagði þörf á þjóðarsátt geng faraldrinum. Sagði hún að ef það reyndist rétt að auðveldara væri að verða sér úti um fíkniefni en að panta pítsu þurfi allir í samfélaginu að taka höndum saman.

Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, og Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, töluðu báðar um bætt aðgengi að neyðarlyfinu Naloxon. Lyfið er til í tvenns konar lyfjaformi, sem stungulyf og nefúðalyf, og getur það komið í veg fyrir andlát ef það er gefið nægjanlega fljótt eftir ofskömmtun. Lagði Helga Vala til að það yrði til reiðu í öllum lögreglubílum þar sem oft og tíðum séu lögreglumenn fyrstir á vettvang eftir ofskömmtun.

Þarf að gæta að neikvæðum afleiðingum aðgerða stjórnvalda

Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata.
Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata. mbl.is/Kristinn Magnússon

Halldóra talaði sömuleiðis um að stjórnvöld þurfi að gæta þess að auka ekki frekar á vanda fíkla með aðgerðum sínum. Sagði hún að með því að skerða framboð lyfseðilsskyldra ópíóða hækki verð sem gæti ýtt neytendum út í hættulega hegðun. Þá geti takmarkað framboð sömuleiðis skapað spurn eftir t.d. heróíni sem opni á annan og hættulegri vanda.

Helgi Hrafn Gunnlaugsson, flokksbróðir Halldóru, tók í sama streng. „Gjörðir okkar geta haft óæskilegar hliðarverkanir,“ sagði Helgi Hrafn. „Það eru til úrræði sem hafa ekki að mér vitandi neikvæð áhrif, t.d. forvarnir og meðferðarúrræði,“ sagði Helgi Hrafn sem lagði til að aukinn kraftur yrði settur í slík úrræði. „Að draga úr framboði af ópíóðum getur fækkað nýjum fíklum, en hópurinn í neyslu gæti orðið fyrir meira réttindatjóni,“ sagði hann og talaði um mikilvægi skaðaminnkandi úrræða, að fíklum verði gert kleift að neyta efna á sem skaðminnstan máta.

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata.
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Hari
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert