Vetrarfærð víða á fjallvegum

Vetrarfærð er víða á fjallvegum á Suður-  og Vesturlandi. Á Hellisheiði er krapi og snjóþekja á Mosfellsheiði og hálkublettir í Þrengslum og Lyngdalsheiði. Hálka er á Holtavörðuheiði og hálkublettir á Bröttubrekku.

Gul viðvör­un er í gildi frá klukk­an 8 til klukk­an 14 á Norður­landi eystra en þar má bú­ast við tals­verðri snjó­komu til fjalla með tak­mörkuðu eða lé­legu skyggni og versn­andi akst­urs­skil­yrðum. Slydda eða rign­ing við sjáv­ar­síðuna. Sama viðvör­un er í gildi fyr­ir Aust­ur­land að Glett­ingi frá klukk­an 9 til 16 í dag.

Lægð geng­ur yfir landið í dag, með rign­ingu eða skúr­um en slyddu eða snjó­komu á fjall­veg­um norðan til á land­inu. Lægðinni fylg­ir einnig all­hvöss eða hvöss suðvestanátt sunn­an­lands og síðar einnig á Aust­ur­landi, en hæg­ari vind­ur í öðrum lands­hlut­um. Hiti 1 til 10 stig, mild­ast syðst. Vest­an 3-10 á morg­un og dá­litl­ar skúr­ir eða slydduél, en létt­skýjað suðaust­an­lands. Litl­ar breyt­ing­ar á veðri á fimmtu­dag, en á föstu­dag er spáð suðvest­an­hvassviðri með tals­verðri rign­ingu sunn­an og vest­an til á land­inu, seg­ir í hug­leiðing­um veður­fræðings á Veður­stofu Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert