Framlengja leitarsamning til ársloka 2019

Frá undirrituninni í dag.
Frá undirrituninni í dag. Ljósmynd/Aðsend

Sjúkratryggingar Íslands og Krabbameinsfélag Íslands framlengdu í dag þjónustusamning um skipulagða leit að krabbameinum í leghálsi og brjóstum.

Framlengingin nær til loka árs 2019, en þetta er í sjöunda skipti sem samningurinn er framlengdur að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Krabbameinsfélaginu.

Félagið sinnir skimun fyrir stjórnvöld í þeim tilgangi að draga úr sjúkdómum og fækka dauðsföllum af þeirra völdum og er þjónustusamningurinn sagður byggja á ítarlegri kröfulýsingu um þjónustuna.

Krabbameinsfélag Íslands hefur sinnt skimun fyrir krabbameinum í brjóstum og leghálsi í áratugi, en rekstrarumhverfi skimunarinnar hefur verið erfitt um langt skeið ekki hvað síst vegna skammtímasamninga sem eru sagðir hafa gert gert ákvarðanatöku erfiða, auk þess sem fjárframlög ríkis hafi ekki dugað til. Þá hafi „heilbrigðisráðherra að undanförnu einnig lýst vilja til breytinga á fyrirkomulagi skimana en bíður tillagna nýskipaðs skimunarráðs,“ að því er segir í fréttatilkynningunni.

Sjúkratryggingar Íslands og Krabbameinsfélag Íslands hafa framlengt þjónustusamning um skipulagða …
Sjúkratryggingar Íslands og Krabbameinsfélag Íslands hafa framlengt þjónustusamning um skipulagða leit að krabbameinum í leghálsi og brjóstum. Mynd/Krabbameinsfélagið

Á aukaaðalfundi Krabbameinsfélagsins fyrr í mánuðinum var hins vegar fallist á að samþykkja framlenginguna. Velferðarráðuneytið mun að því skilyrði uppfylltu styrkja félagið um 50 milljónir á þessu ári vegna uppsafnaðs halla á leitarstarfinu og aðgerða til að auka þátttöku kvenna. 

„Til að tryggja áframhaldandi gæði skimunarinnar og aðgengi almennings að þessari mikilvægu þjónustu samþykkti félagið einnig að veita til hennar allt að 75 milljónum á þessu ári og því næsta, til viðbótar við styrk ráðuneytisins,“ segir í tilkynningu félagsins sem segist hafa alla burði til að sinna áfram skipulagðri skimun fyrir krabbameinum. Forsendur þess séu hins vegar að samið verði um verkefnið til lengri tíma í einu og að yfirvöld fjármagni verkefnið að fullu.

Krabbameinsfélagið muni enda á næstunni óska eftir viðræðum við stjórnvöld um hugmyndir sínar að fyrirkomulagi skimana fyrir krabbameinum til framtíðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert