Keppa í iðngreinum á Euroskills

Íslensku keppendurnir á Euroskills.
Íslensku keppendurnir á Euroskills. Ljósmynd/Verkiðn

Átta ungir Íslendingar hófu keppni á Euroskills í Búdapest í dag. Þar er keppt í fjölbreyttum iðngreinum, en Íslendingarnir keppa í rafvirkjun, rafeindavirkjun, málmsuðu, trésmíði, grafískri hönnun, bakstri, framleiðslu og matreiðslu.

Það er Verkiðn sem sendir keppendurna til leiks, en alls taka 28 Evrópulönd þátt og keppt er í 35 greinum alls.

Adam Kári Helgason frá Rafiðnaðarsambandi Íslands er einn af þjálfurum rafvirkjans í keppninni, Jóns Þórs Einarssonar, segir Euroskills-keppnina mjög góðan vettvang fyrir íslenskar iðngreinar til þess að mæla sig við það sem best gerist í Evrópu og til aðsækja nýja þekkingu og stuðla að stöðugri framþróun í greinunum.

„,Það er gaman að sjá keppendur okkar í svona fjölbreyttum og krefjandi greinum að spreyta sig. Það er frábær stemmning í íslenska hópnum og það verður spennandi að sjá hvernig okkar keppendum gengur. Það stefna allir auðvitað á að gera land og þjóð stolta og skara framúr í keppninni," segir Adam

Hinir íslensku keppendurnir eru þau Ásbjörn Eðvaldsson, sem keppir í rafeindavirkjun, Þröstur Kárason, sem keppir í trésmíði, Finnur Ingi Harrýsson, sem keppir í málmsuðu, Haraldur Örn Arnarson, grafískur hönnuður, Þórey Lovísa Sigurmundsdóttir bakari, Sigurður Borgar Ólafsson, þjónn sem keppir í framleiðslu og Kristinn Gísli Jónsson kokkur. Þau eru sveinar og nemar í sínum fögum.

Auk þeirra eru átta íslenskir dómarar með í för sem dæma í keppninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert