Ari ekki lengur eftirlýstur

Ari var viðstaddur fyrirtöku á ákæru gegn sér við Héraðsdóm …
Ari var viðstaddur fyrirtöku á ákæru gegn sér við Héraðsdóm Norður­lands eystra í síðustu viku. mbl.is/Jón Pétur

Ari Rún­ars­son, sem alþjóðalög­regl­an Interpol lýsti eftir í síðasta mánuði, er kominn til landsins og því ekki lengur eftirlýstur að sögn Arn­fríðar Gígju Arn­gríms­dótt­ur, aðstoðarsak­sókn­ara hjá embætti héraðssaksóknara.

Ari sem var eftirlýstur fyrir vopnað rán og lík­ams­árás var viðstaddur fyrirtöku á ákæru gegn sér við Héraðsdóm Norður­lands eystra í síðustu viku.

Hann var ásamt öðrum manni ákærður hjá embætti héraðssak­sókn­ara fyr­ir að hafa veist að karl­manni með of­beldi og hót­un­um á bif­reiðastæði bak við Næt­ur­söl­una við Strand­götu á Ak­ur­eyri í októ­ber í fyrra.

Ann­ar hinna ákærðu var ákærður fyr­ir sér­stak­lega hættu­lega lík­ams­árás með því að hafa slegið mann­inn með flösku í höfuðið, kýlt hann ít­rekað í and­lit og höfuð og sparkaði í fót­leggi hans. Þá hótuðu þeir að drepa mann­inn og grafa í holu úti í sveit, auk þess að „búta niður kær­ustu hans, skera hann á háls og stinga hníf upp í heila hans,“ eins og það er orðað í ákær­unni.

Arn­fríður Gígja Arn­gríms­dótt­ir segir Ara ekki hafa sætt neinum þvingunarúrræðum fyrir útgáfu ákæru í málinu og að ekki hafi verið talin þörf á að gera breytingu í þeim efnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert