EES-samningurinn ekki til endurskoðunar

„Það hvarflar ekki einu sinni að mér,“ sagði Kristján Þór.
„Það hvarflar ekki einu sinni að mér,“ sagði Kristján Þór. mbl.is/Eggert

Ekki kemur til greina að endurskoða EES-samning Íslands vegna úrskurða EFTA-dómstólsins og Hæstaréttar þess efnis að ólögmætt sé að takmarka innflutning á fersku kjöti. Þetta kom fram í máli landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag. „Það hvarflar ekki einu sinni að mér,“ sagði Kristján Þór Júlíusson.

Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, gerði dóm Hæstaréttar frá því í síðustu viku að umræðuefni sínu í og vísaði meðal annars í ummæli Gunnars Braga Sveinssonar, þingmanns Miðflokksins og fyrrverandi utanríkisráðherra og landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, sem hann lét falla á Facebook í kjölfar dóms Hæstaréttar í málinu. „Ef það er svo að EES samningurinn ógnar matvælaframleiðslu og fæðuöryggi þjóðarinnar ber okkur að skoða hvort það sé þess virði að halda í samninginn,“ skrifaði Gunnar Bragi.

Jón Steindór beindi fyrirspurn sinni til Kristjáns Þórs og spurði hvort til álita kæmi að óska eftir endurskoðun EES-samningsins eða hverfa frá honum. Eins og áður segir sagði Kristján Þór það ekki hvarfla að honum. Hann sagði stefnuna þá að halda uppi vörnum í málinu og að fá viðbótartryggingu gegn smitsjúkdómum, svo sem salmónellu, líkt og nágrannaríki Íslands hafi gert.

Leggur fram frumvarp í febrúar

Þá kom fram í svari landbúnaðar og sjávarútvegsráðherra við fyrirspurn Birgis Þórarinssonar, þingmanns Miðflokksins, að til stæði að leggja fram frumvarp vegna málsins í febrúar á næsta ári.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert