Íslenskir nemar elstir og tekjuhæstir

Tekjur íslenskra háskólanema voru rúmlega 30% hærri en tekjur í …
Tekjur íslenskra háskólanema voru rúmlega 30% hærri en tekjur í Noregi þar sem þær voru næsthæstar, mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Íslenskir háskólanemar eru þeir elstu í Evrópu, eiga fleiri börn og eru með hærri tekjur en háskólanemar í öðrum Evrópulöndum, en kostnaður íslenskra háskólanema vegna fæðis og húsnæðis er um tvöfalt hærri en meðaltalið er í Evrópu.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í niðurstöðum könnunar sem gerð var á félags- og efnahagslegri stöðu námsfólks á háskólastigi í 28 Evrópulöndum og fjallað er um á vef Landsbankans.

Meðalaldur þeirra Íslendinga sem svöruðu könnuninni var 29,7 ár en meðalaldurinn fyrir alla Evrópu var 25 ár. 30% svarenda á Íslandi sögðust eiga barn en aðeins 10% allra svarenda. Þá voru íslenskir svarendur líklegastir til að búa með maka eða börnum, eða 41% á móti 21% af öllum svarendum. Hlutfall þeirra sem kváðust búa í foreldrahúsum var lægra á Íslandi en í Evrópu allri, 28% á móti 36%, en þó hæst á Norðurlöndunum.

Tekjur námsmanna voru kannaðar á mælikvarða kaupmáttar (PPS), sem leiðréttir kaupmátt á milli landa, en tekjur íslenskra háskólanema voru rúmlega 30% hærri en tekjur í Noregi þar sem þær voru næsthæstar, en 45% hærri en að meðaltali í Evrópu.

Útgjöld voru einnig mæld með PPS og voru útgjöld íslenskra námsmanna hærri en annars staðar, en kostnaður við fæði og húsnæði var tvöfalt hærri en meðaltalið í Evrópu. Norðmenn voru næstir Íslendingum í báðum tilvikum, en fæðiskostnaður norskra háskólanema var 57% af fæðiskostnaði Íslendinga og húsnæðiskostnaður 70% af húsnæðiskostnaði íslenskra námsmanna.

98% íslenskra námsmanna greiða skólagjöld, en meðaltalið í Evrópu er 55%. 88% Norðmanna greiða skólagjöld, en aðeins 5% Dana og 2% Svía greiða skólagjöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert