Komin með samning við sjúkratryggingar

Anna opnaði stofu sína fyrir um sex vikum.
Anna opnaði stofu sína fyrir um sex vikum. mbl.is/Hari

Anna Björnsdóttir, taugalæknir og sérfræðingur í parkinsonsjúkdómi, er komin með samning við Sjúkratryggingar Íslands, en hún fékk tilkynningu þess efnis á föstudag. RÚV greinir frá.

Önnu var upphaflega neitað um samn­ing við Sjúkra­trygg­ing­ar Íslands þegar hún sneri aft­ur til Íslands úr sér­fræðinámi í Banda­ríkj­un­um fyrr á þessu ári. Hún opnaði engu að síður stofu hér á landi í september en samn­ings­leysið hafði þau áhrif að henn­ar sjúk­ling­ar fengu þjón­ust­una ekki niður­greidda, líkt og aðrir.

Skömmu eftir að Anna opnaði sína stofu féll hins vegar dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem felld var úr gildi ákvörðun um að hafna umsókn Ölmu Gunnarsdóttur, sérfræðings í háls-, nef- og eyrnalækningum um aðild að rammasamningi Sjúkratrygginga Íslands. Komst héraðsdómur að þeirri niðurstöðu að ráðherra hefði brotið lög með fyrirmælum um að hafna Ölmu um aðild að samningum.

Þar sem Anna er komin með samning við Sjúkratryggingar fá hennar sjúklingar nú niðurgreiðslu líkt og þeir sem leita til annarra sérfræðilækna. Í samtali við RÚV segir hún að um um 100 til 150 sjúklingar hafi þegar komið til hennar og greitt fullt gjald.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert