Vill að borgarstjóri axli ábyrgð

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn.
Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn. mbl.is/Arnþór

„Mér finnst þrennt hafa farið úrskeiðis. Í fyrsta lagi fór verkefnið hressilega fram úr áætlun. Í öðru lagi þá var farið áfram með það án fjárheimilda og í þriðja lagi þá var það ekki boðið út. Þetta eru nákvæmlega sömu þrjú atriði og gerðust varðandi braggann,“ segir Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, spurður út í sitt álit á verkefni Félagsbústaða við Írabakka.

„Þar fór verkefnið tvisvar sinnum meira fram yfir og þar voru allir reikningar greiddir án þess að heimildir væru til og síðan var ekki boðið út,“ bætir hann við.

Í samantekt um skýrslu innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar vegna úttektar á viðhaldsverkefni Félagsbústaða við Írabakka 2-16 kemur fram að ráðast þurfi í gagngerar endurbætur á starfsemi og innra eftirliti Félagsbústaða. Heildarkostnaður við verkið var 728 milljónir og fól í sér 83 prósenta framúrkeyrslu.

„Munurinn á þessum tveimur málum er þessi: framkvæmdastjóri Félagsbústaða hefur sagt af sér en framkvæmdastjóri braggamálsins, sem er framkvæmdastjóri borgarinnar og borgarstjóri, hefur ekki gert það,“ segir Eyþór.

Á borgarstjórnarfundi á morgun mun minnihlutinn í borginni leggja fram tillögu um að fá utanaðkomandi aðila til að fara yfir braggamálið, sökum þess að innri endurskoðun borgarinnar er störfum hlaðin, að sögn Eyþórs.  

„Hver sem ástæðan er tók tvö og hálft ár að klára úttektina á blokkinni í Breiðholtinu og það er mikilvægt fyrir starfsmenn að þeir séu ekki undir pressu vegna þessara mála heldur þurfa þeir að vera klárir. Vonandi næst samstaða um að styrkja úttektarbatteríið,“ segir hann.

Varðandi mál Félagsbústaða segir Eyþór að verið sé að kalla eftir upplýsingum. „Það má segja að þessi box séu svolítið lokuð, Sorpa, Strætó, Félagsbústaðir og við viljum bara opna upp á gátt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert