Allt of hægt gengið að friðlýsa

Guðmundur Ingi Guðbrandsson við Stjórnarráðið.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson við Stjórnarráðið. mbl.is/​Hari

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, er ánægður með umfjöllun fréttaskýringaþáttarins Kveiks um friðlýsingar í kvöld og segir að allt of hægt hafi gengið að friðlýsa á undanförnum árum.

Í þættinum var talað um að stífla hafi myndast sem hefur gert það að verkum að aðeins örfá þeirra um 50 svæða sem Alþingi hefur fyrir löngu ákveðið að friðlýsa hafa komist alla leið í þann flokk.

„En núna er þetta komið á dagskrá stjórnvalda og það er stórt verkefni að fylgja eftir átakinu um friðlýsingar sem kveðið er á um í stjórnarsáttmálanum,“ segir hann á Facebook-síðu sinni.

Hann bendir á að þrjú svæði hafi verið send út til kynningar vegna friðlýsingar og að fleiri muni fara út á næstu dögum. Öll falli þau undir verndarflokk rammaáætlunar og er þar um að ræða vernd gegn orkuvinnslu.

„Átak ríkisstjórnarinnar tekur einnig til friðlýsinga svæða sem eru á eldri náttúruverndaráætlunum sem Alþingi samþykkti fyrir allmörgum árum að bæri að friðlýsa, líkt og fjallað var um í þætti kvöldsins. Ég tel mikil efnahagsleg tækifæri felast í því að ráðast í frekari friðlýsingar fyrir hinar dreifðu byggðir og fyrir ímynd Íslands sem náttúruparadísar og ferðamannastaðar,“ skrifar Guðmundur Ingi.

„Í átakinu lítum við líka til friðlýsinga sem stjórntækis á viðkvæmum svæðum sem eru undir álagi ferðamanna. Þegar eru hafnar viðræður við nokkur sveitarfélög vegna slíkra svæða.“

Guðmundur nefnir einnig að stærsta verkefnið sé miðhálendisþjóðgarður, sem yrði stærsta framlag Íslands til náttúruverndar í heiminum.

Sömuleiðis segir hann að í byrjun nóvember sé að vænta niðurstaðna úr rannsókn hagfræðistofnunar HÍ á efnahagslegum áhrifum 11 friðlýstra svæða á Íslandi sem stofnunin vinnur fyrir umhverfis- og auðlindaráðuneytið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert