Fagnar því að bæjarstjórn vandi sig

Verksmiðjan í Helguvík.
Verksmiðjan í Helguvík. mbl.is/RAX

Félagið Stakkberg ehf. fagnar því að bæjarstjórn Reykjanesbæjar vandi skoðun sína á erindi Verkís fyrir hönd félagsins um að skipulags- og matlýsing vegna umbóta á verksmiðju félagsins í Helguvík verði tekin til meðferðar samkvæmt 43. grein skipulagslaga.

Einnig var í erindinu farið fram á heimild til að vinna deiliskipulagsbreytingu í samræmi við ofangreinda skipulags- og matslýsingu samkvæmt 2 mgr. 38. gr. laganna.

„Aðdragandi málsins var sá að í bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 12. maí 2017, til Reykjanesbæjar var þeim tilmælum beint til sveitarfélagsins að það tæki þá þegar til endurskoðunar deiliskipulag á lóð sem verksmiðja Stakksbergs stendur á. Þá eru byggingarreitir á lóðinni í gildandi deiliskipulagi aðskildir sem setur möguleikum til endurbóta á kísilverinu skorður,“ segir í tilkynningu frá Stakkbergi.

Fram kemur að aðalmarkmið deiliskipulagsbreytingarinnar sé að koma til móts við athugasemdir Skipulagsstofnunar og að skapa svigrúm fyrir þær úrbætur á verksmiðjunni sem Umhverfisstofnun hefur krafist í því skyni að lágmarka umhverfisáhrif af rekstri hennar.

Afgreiðslu frestað á bæjarstjórnarfundi

Erindið var tekið fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar 12. október og var erindinu þar hafnað. Á fundi bæjarstjórnar í dag var ákveðið að fresta afgreiðslu á niðurstöðu umhverfis- og skipulagsráðs í því skyni að sveitarfélagið gæti aflað frekari upplýsinga frá Skipulagsstofnun auk þess að vinna nánari greiningu á málinu, að því er segir í tilkynningunni. 

„Félagið mun áfram vinna að mati á umhverfisáhrifum í samræmi við úrbótaáætlun og áréttar að félagið telur rétt að þessir tveir ferlar verði unnir samhliða til þess að tryggja aðkomu almennings og hagsmunaaðila að skipulagsferlinu á fyrstu stigum þess,“ segir einnig í tilkynningunni.

Félagið telur að slíkt myndi stuðla að auknu gagnsæi og upplýsingaflæði, skila betri og markvissari skipulagsvinnu og veita sveitarstjórn og öðrum sem koma að skipulagsgerðinni betri yfirsýn allt frá upphafi vinnunnar.

„Stakksberg mun kappkosta að málið verði unnið með vönduðum hætti og í góðu samráði við sveitarfélagið og aðra hagsmunaaðila.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert