Tækninotendur aldrei alveg öruggir

Þegar þú notar alltaf sama aðgang skilurðu eftir þig slóð …
Þegar þú notar alltaf sama aðgang skilurðu eftir þig slóð sem þeir sem komast inn á reikninginn geta síðan rakið. mbl.is/Árni Sæberg

„Það er ástæða fyrir því að fólki er ráðlagt að vera með mismunandi lykilorð og mismunandi aðganga. Það er ekkert öruggt þegar kemur að þessari tækni þótt eitthvað sé betur tryggt en annað,“ segir Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar. Greint var frá því í dag að öryggisbrestur hjá Facebook hefði náð til 2.500 notenda á Íslandi.

Helga segir að fólk sem notar tækni sem þessa geti aldrei verið visst um að lenda ekki í atviki sem þessu. Umræddur öryggisbrestur varð til þess að óviðkom­andi aðilum tókst að kom­ast yfir ýms­ar upp­lýs­ing­ar um not­end­ur, svo sem net­föng þeirra og síma­núm­er, og í einhverjum tilfellum fæðingardag og staðsetningu.

„Það sem fólk þarf að huga að er að lágmarka áhættuna þegar það notar tæknina. Þegar allt er gert í gegnum Facebook-aðganginn er verið að opna fleiri víddir en þarf að gera, þú ert þá í rauninni með öll eggin í sömu körfunni. Þegar þú notar alltaf sama aðgang skilurðu eftir þig slóð sem þeir sem komast inn á reikninginn geta síðan rakið,“ segir Helga.

Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar.
Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar. mbl.is/Eggert

Þeim sem öryggisbresturinn náði til er bent á að vera á sérstöku varðbergi gagnvart svikapóstum og símtölum. „Það veit enginn hvar verður höggvið næst. Það er margt hægt að gera með þessar upplýsingar. Það er kannski legið á þeim í einhvern tíma og svo ráðist til atlögu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert