Úttektin tók 210 klukkustundir

Frá fundi borgarstjórnar Reykjavíkur.
Frá fundi borgarstjórnar Reykjavíkur. mbl.is/Eggert

Það tók innri endurskoðun Reykjavíkurborgar 210 klukkustundir að gera úttekt á verkefni Félagsbústaða við Írabakka, eða tæplega einn og hálfan mánuð. Þetta sagði Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, á borgarstjórnarfundi í kvöld. Þar vísaði hún í tölur frá Halli Símonarsyni, innri endurskoðanda borgarinnar.

Hildur Björnsdóttir og Eyþór Arnalds, borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins.
Hildur Björnsdóttir og Eyþór Arnalds, borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert

Í framhaldinu var gerð endurskoðunaráætlun þar sem öðrum úttektum var forgangsraðað fram yfir hana en hingað til hefur verið talað um að úttektin hafi tekið tvö og hálft ár í vinnslu.

Þetta kom fram í umræðum um tillögu Sjálfstæðisflokksins um að utanaðkomandi aðila verði falið að gera heildarúttekt á framkvæmdum við braggann á Nauthólsvegi 100.

Dóra Björt Guðjónsdóttir frá Pírötum og Líf Magneudóttir, Vinstri grænum.
Dóra Björt Guðjónsdóttir frá Pírötum og Líf Magneudóttir, Vinstri grænum. mbl.is/Eggert

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins, sagði þessar upplýsingar ekki breyta því hversu lengi þurfti að bíða eftir úttektinni. „Við veltum því fyrir okkur af hverju þetta var svona neðarlega á forgangslistanum,“ sagði hann.

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar, sagði borgarstjórnina líta braggamálið mjög alvarlegum augum og kvaðst treysta innri endurskoðun fullkomlega fyrir heildarúttektinni. Einnig sagðist hún treysta því að innri endurskoðun myndi láta vita ef hún telji sig svo störfum hlaðna að hún geti ekki gert úttektina.

„Ég get fullvissað borgarstjórn um það að innri endurskoðun mun útvista því sem hún þarf til þess að geta tekið þetta mál föstum tökum,“ sagði hún og lagði til að tillögunni yrði vísað frá.

mbl.is/Eggert
mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert