„Var fyrst og fremst nörd“

Paul Allen var meðal ríkustu manna heims, en á sama …
Paul Allen var meðal ríkustu manna heims, en á sama tíma vildi hann fá frið til að sinna áhugamálum sínum. AFP

Athafnarmaðurinn Paul Allen var flókin persóna sem hafði mörg áhugamál, allt frá gítarleik yfir í tækniþróun og rannsóknir á hafsbotni og fornminjum. Hann var einn ríkasti maður heims en var mjög varkár og mat einkalíf sitt mikið og vildi oft fá að vera í friði að sinna sínum áhugamálum. Þetta segir Haraldur Sigurðsson, eldfjallafræðingur og vinur Allen, en Haraldur fór reglulega með Allen í rannsóknarferðir á undanförnum árum víða um heim. Greint var frá því í gærkvöldi að Allen hafi látist eftir baráttu sína við krabbamein.

Allen stofnaði meðal annars hugbúnaðarfyrirtækið Microsoft með Bill Gates árið 1975. Átta árum síðar yfirgaf hann fyrirtækið, en hélt eignarhlut sínum í félaginu. Þá setti hann á fót rannsóknarstofnun í heilarannsóknum og aðra stofnun í gervigreind. Stofnaði Allen einnig Jimi Hendrix safn í Seattle og var eigandi tveggja atvinnumannaíþróttaliða í Seattle, þeirra Seattle Seahawks í amerískum fótbolta og Portland Trail Blazers í körfubolta.

Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur hefur undanfarin 8 ára ferðast reglulega með …
Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur hefur undanfarin 8 ára ferðast reglulega með Allen víða um heim við rannsóknarstörf. mbl.is/RAX

Byrjaði allt með gosinu í Eyjafjallajökli

Árið 2010 þegar gosið í Eyjafjallajökli hófst hafði Allen samband við Harald. „Hann hafði lesið höfuðrit mitt, Encyclopedia of volcanoes [alfræðirit um eldfjöll], og hringdi í mig. Þannig byrjuðu kynni okkar,“ segir Haraldur í samtali við mbl.is. Í framhaldinu gerðist Haraldur leiðsögumaður fyrir Allen í fjölmörgum ferðum hans á skútunni Octapus víða um heim. Kom Allen meðal annars nokkrum sinnum til Íslands og þá fóru þeir saman til Nýju-Gíneu og Salomonseyja.

Snekkjan Octapus, sem myndi þýðast sem Kolkrabbinn á íslensku, er ein stærsta snekkja heims, en hún er 126 metra löng og var smíðuð árið 2003. „Það er ekki rétt að kalla þetta skemmtisnekkju, því þetta er eitthvað best hannaða hafrannsóknarskip sem ég hef komið um borð í,“ segir Haraldur. Þannig eru tveir kafbátar um borð sem og tvær þyrlur og 58 manna áhöfn. Annar kafbáturinn er ómannaður og kemst á þriggja kílómetra dýpi, en hinn er fyrir allt að 10 manns og kemst á 300 metra dýpi.

Octopus hefur verið tíður gestur hér. Hún var í eigu …
Octopus hefur verið tíður gestur hér. Hún var í eigu Pauls Allens. mbl.is/Styrmir Kári

Rannsakaði neðanjarðar eldvirkni og fornminjar á hafsbotni

Haraldur segir að á ferðum sínum hafi Allen meðal annars viljað rannsaka eldvirkni neðansjávar. Hafi hann meðal annars sýnt hverastrýtum á botni Eyjafjarðar mikinn áhuga. Þá skoðuðu þeir neðansjávarhverasvæði við Nýju-Gíneu þar sem hitinn var um 375°C og mikið var um eðalmálma og einstakt lífríki.

En það var ekki bara jarð- og náttúrufræði sem Allen hafði áhuga á þegar hann hélt í rannsóknarferðir sínar. Haraldur segir að hann hafi meðal annars haft mikinn áhuga á fornminjum og skipum sem höfðu sokkið niður á hafsbotn. Sérstaklega hafi hann verið áhugasamur um skip frá seinni heimstyrjöldinni.

Hann hafi meðal annars notað Octapus til að leita að skipsflökum við Vestfirði og Skógarströnd, en þekktasta verkefnið hafi örugglega verið þegar flak Hood, eins stærsta herskips Breta í seinni heimstyrjöldinni, var skoðað. Hafði Hood verið grandað af þýska herskipinu Bismarck. Notuðu þeir mannaða kafbátinn til að ná upp skipsbjöllu skipsins eftir að hafa fengið leyfi til þess.

Haraldur segir að mannaði kafbáturinn hafi meðal annars verið notaður til að kafa niður við Salomonseyjar þar sem tugir skipa eru á hafsbotni eftir miklar sjóorrustur á milli Bandaríkjamanna og Japana í seinni heimstyrjöldinni.

Spilaði með Bono um borð í snekkjunni

En snekkjan var ekki aðeins rannsóknarstöð því hún var ákveðið athvarf fyrir Allen. Þannig segir Haraldur að í snekkjunni hafi verið heilt hljóðver þar sem Allen hafi viljað taka upp plötur. Hafi hann meðal annars oft fengið þekkta tónlistarmenn um borð eins og írska tónlistarmanninn Bono. Hafi þeir spilað saman, en Haraldur segir að Allen hafi verið mjög góður gítarleikari. Í innréttingu skipsins var einnig innbyggður stór gítar sem náði upp í gegnum þilför skipsins að sögn Haraldar.

Paul Allen ásamt Bill Gates árið 2000.
Paul Allen ásamt Bill Gates árið 2000. AFP

„Alveg ótrúlegt hvað hann náði að gera“ 

Spurður hvernig Haraldur myndi lýsa persónu Allen segir Haraldur: „Hann var fyrst og fremst nörd. Hann var mjög klár í tæknimálum og byrjaði snemma að skrifa kóða. Það lék í höndum hans.“ Þá hafi hann sökkt sér í fjölmörg áhugamál sín eins og greint hefur verið hér að framan. „Hann var mikill áhugamaður um hafið og allt haftengt,“ segir Haraldur. „Það er alveg ótrúlegt hvað hann náði að gera,“ bætir hann við og bendir á að Allen hafi tekið þátt í verkefninu Stratolaunch Systems, þar sem unnið er að hönnun stærstu flugvélar heims sem á að flytja flaugar út í geim og sinnt ýmsum góðgerðarverkefnum í gegnum tíðina.

Allen var aldrei giftur og átti engin börn. Haraldur segir að líklegast muni stofnanir sem Allen setti á fót halda áfram starfsemi sinni til frambúðar, en hann er þó ekki jafn bjartsýnn á áframhald þeirra rannsókna sem voru framkvæmdar um borð í Octopus. Segir hann að það hafi meira verið drifið áfram af ástríðu Allen sjálfs og að líklega verði snekkjan seld. Það muni þó koma í ljós síðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert