Allt að 19 mánaða bið eftir svari ráðuneytis

Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis.
Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis. mbl.is/Eggert

Lengsti tími sem embætti umboðsmanns Alþingis hefur þurft að bíða eftir svörum ráðuneytis við fyrirspurnum sínum við úrvinnslu kvartana frá almenningi er eitt ár og sjö mánuðir. Þetta er meðal þess sem kom fram á opnum fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þar sem Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, kynnti ársskýrslu umboðsmanns 2017.

Tryggvi vakti athygli á biðtíma eftir svörum ráðuneyta í yfirferð sinni. Sagði hann meðal annars að í sumar kom upp sú staða að löng bið var á svörum frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu, en fyrirspurnir umboðsmanns til ráðuneytisins voru orðnar ellefu talsins á þessum tíma. „Lengsti biðtíminn, ég held að það hafi verið eitt ár og sjö mánuðir,“ sagði Tryggvi. Embætti umboðsmanns Alþingis gerði þá athugasemdir við ráðuneytið og bárust svörin þá skömmu síðar.

Langur biðtími hefur ekki einungis áhrif á embætti umboðsmanns Alþingis heldur einnig almenning, líkt og fram kom í máli Tryggva. Hann segir mikilvægt að svör berist tímanlega og þau séu greinargóð svo ekki sé þörf á að skrifa stofnunum ítrekað til að óska eftir upplýsingum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert