Dæmdur fyrir að hóta lögreglu ítrekað

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Þorsteinn Ásgrímsson

Karlmaður á þrítugsaldri var í dag dæmdur í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að hóta ítrekað lögreglumönnum og fjölskyldum þeirra lífláti. Þá var hann einnig fundinn sekur um að hafa ekið bifreið undir áhrifum vímuefna, en hann mældist með amfetamín, MDMA og slævandi lyf í blóði sínu.

Samkvæmt dómi héraðsdóms kemur fram að maðurinn hafi játað brot sín skýlaust. Var honum gefið að sök að hafa hótað tveimur lögreglumönnum og fjölskyldum þeirra lífláti árið 2017 þegar þeir gegndu skyldustarfi sínu.

Þá var hann stöðvaður fyrir vímuefnaakstur fyrr á þessu ári. Hótaði hann einum lögreglumanni líkamsmeiðingum og lífláti í lögreglubíl á leið niður á lögreglustöð og sama lögreglumanni og tveimur öðrum líkamsmeiðingum og lífláti þegar á lögreglustöðina var komið.

Fram kemur í dóminum að maðurinn hafi verið undir miklum áhrifum fíkniefna þegar hann framdi brotin. „Var ástand hans slíkt að vista þurfti hann í fangageymslu þar til hann var viðræðuhæfur,“ segir í dóminum.

Er það metið til þyngingar að brot hans hafi beinst gegn nokkrum lögreglumönnum og verið alvarleg háttsemi. Til mildunar er hins vegar vísað til þess að hann hafi lokið meðferð, hafi samastað og hafi í hyggju að halda áfram í meðferð þegar pláss losnar. Þá hafi hann hug á að komast í vinnu sem fyrst.

Í þessu ljósi taldi dómarinn rétt að skilorðsbinda refsinguna, en að maðurinn mætti ekki neyta áfengis eða deyfilyfja á skilorðstíma og ætti hann að vera í eftirliti hjá Fangelsismálastofnun vegna þessa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert