Fulltrúi ráðuneytis á fund vegna skýrslu

Bergþór Ólason segir stöðuna skýrast betur eftir fund með fulltrúa …
Bergþór Ólason segir stöðuna skýrast betur eftir fund með fulltrúa ráðuneytisins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Starfshópur sem vann áfangaskýrslu um störf og starfshætti Samgöngustofu kom á fund umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis í gær til að fara yfir skýrsluna og þær athugasemdir sem settar eru fram í henni. Starfshópurinn skilaði af sér áfangaskýrslu í október árið 2017 þar sem kom fram alvarleg gagnrýni á innri starfsemi Samgöngustofu. Þá voru þar gerðar verulegar athugasemdir við siglingahluta Samgöngustofu.

Bergþór Ólason, formaður umhverfis- og samgöngunefndar, segir hópinn hafa farið yfir sína vinnu og athugasemdir sem gerðar voru. Í kjölfarið hafi nefndin ákveðið að boða fulltrúa samgönguráðuneytisins á fund til sín á morgun.

„Tilgangurinn er að fara yfir annars vegar það sem hefur verið gert og hins vegar þau atriði sem ekki hefur verið brugðist við. Þá liggur væntanlega einhver ástæða þar að baki. Í kjölfar heimsóknar ráðuneytisfulltrúa geri ég ráð fyrir að nefndin hafi betri yfirsýn yfir það hver staðan er í kjölfar þessarar stöðuskýrslu,“ segir Bergþór.

Sigurður Kári Kristjánsson, formaður starfshópsins, gagnrýndi í samtali við Morgunblaðið í lok september að ekki hafi orðið framhald á störfum hópsins. Þá furðaði Jón Gunnarsson, fyrrverandi- sveitarstjórnar- og samgönguráðherra, sig á afdrifum skýrslunnar og að ekkert hafi verið gert í þeim athugasemdum sem gerðar voru.

„Stöðuskýrslan var upphaflega hugsuð þannig að nefndin myndi áfram vinna úr þeim sjónarmiðum sem þar væru fram sett, en það virðist ekki vera,“ segir Bergþór, en tekur fram að hugsanlegt sé að brugðist hafi verið við innan ráðuneytisins eða Samgöngustofu án þess að það liggi sérstaklega fyrir. Það muni skýrast betur á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert