Hagsmunir tryggðir óháð þjóðerni

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála- iðnaðar og nýsköpunarráðherra.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála- iðnaðar og nýsköpunarráðherra. mbl.is/Eggert

Ráðherra ferðamála telur ekki þörf á að setja upp sérstakar hindranir varðandi eignarhald í ferðaþjónustu, en segir að tryggja verði almenningi ákveðið endurgjald vegna starfsemi fyrirtækja á landi í almannaeigu og nýtingar á auðlindum. Ekki eigi að skipta máli hvort eignarhald sé innlent eða erlent.

Þetta kom fram í máli Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, í umræðu um erlendar fjárfestingar í ferðaþjónustu á Alþingi í dag.

Ari Trausti Guðmundsson, þingmaður Vinstri grænna, hóf umræður og spurði meðal annars að því hvaða stefnu skyldi taka í málum erlendra landkaupenda og hvaða skorður þeim skyldu settar.

Þórdís Kolbrún sagði stjórnarsáttmála kveða á um athugun á þessum efnum og að hún myndi ekki gefa sér niðurstöður þeirrar athugunar. Hún sagði kaup erlendra aðila á landi geta vakið upp ýmsar spurningar, svo sem varðandi takmörkun á aðgengi almennings og nýtingu lands og auðlinda.

„Ef framferði landeiganda er ekki í samræmi við almannahagsmuni þá er ekki augljóst að það skipti máli hvers lenskur viðkomandi er. Mikilvægast er að vernda almannahagsmuni í þessum efnum, óháð þjóðerni,“ sagði Þórdís Kolbrún.

Þá sagði hún vel kunna að vera að endurskoðunin sem stjórnarskrá kveði á um leiði til þess að skilyrði verði þrengd frá því sem nú er.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert