Kvörtunum fækkar milli ára

Við árslok 2017 var búið að afgreiða rúmlega 80% þeirra …
Við árslok 2017 var búið að afgreiða rúmlega 80% þeirra kvartana sem umboðsmanni Alþingis bárust á árinu, eða 358. mbl.is/Eggert

389 kvartanir og erindi bárust umboðsmanni Alþingis í fyrra og eru það 6,9% færri mál en árið á undan. Kvörtunum hefur fækkað síðustu ár en á árunum 2011 til 2014 voru kvartanir að jafnaði í kringum 500. Langalgengasta umkvörtunarefnið, líkt og fyrri ár, er tafir á afgreiðslu mála hjá hinu opinbera eða rúmur fimmtungur.

Þetta er meðal þess kemur fram í ársskýrslu umboðsmanns Alþingis 2017. Nú stendur yfir opinn fundur í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þar sem Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, kynnir skýrsluna fyrir nefndinni.

Í skýrslunni má finna úrlausnir kjörins umboðsmanns sem og úrlausnir Þorgeirs Inga Njálssonar sem var settur umboðsmaður samhliða kjörnum umboðsmanni frá 1. september til ársloka.

Við árslok 2017 var búið að afgreiða rúmlega 80% þeirra kvartana sem bárust á árinu, eða 358. Rúmum helmingi þeirra var lokið innan mánaðar, tæplega 90% innan fjögurra mánaða og um 95% á hálfu ári sem er áþekkt hlutfall og undanfarin ár.

Þá gaf umboðsmaður Alþingis út fjórtán álit á síðasta ári. Í tíu þeirra var sérstökum tilmælum beint til stjórnvalda þar sem annmarkar þóttu á málsmeðferð og í 12 voru sett fram almenn tilmæli. Í nær öllum tilvikum þar sem máli var lokið hefur verið farið að tilmælum umboðsmanns en tvö þeirra eru enn til meðferðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert