Neitaði að draga ummæli sín til baka

Ásmundur kvaðst hafa mismælt sig á þingfundi í síðustu viku …
Ásmundur kvaðst hafa mismælt sig á þingfundi í síðustu viku þegar hann talaði um „sérfræðinga að sunnan“ sem SS-sveitina. mbl.is/Kristinn Magnússon

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, fór fram á það í ræðu sinni um störf þingsins á Alþingi í dag að Ásmundur Friðriksson gæfi skýringar á og drægi til baka ummæli sín þess efnis að Píratar hefðu bendlað hann við SS-sveitir þýskra nasista og kallað hann SS-mann.

Ásmundur, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, kvaðst hafa mismælt sig á þingfundi í síðustu viku þegar hann talaði um „sérfræðinga að sunnan“ sem SS-sveitina og sagði þingmenn Pírata hafa staðið upp á þinginu og bendlað hann við stormsveitir þriðja ríkisins.

Í ræðu sinni í dag sagði Helgi Hrafn Ásmund fara með rangt mál. Þingmaður Pírata, Smári McCarthy, hafi gagnrýnt þessa orðnotkun Ásmundar og beðið hann að draga hana til baka, sem og hann hafi gert. Þetta mætti sjá á upptöku frá umræddum þingfundi.

Helgi Hrafn sá sig knúinn til að útskýra ummæli sín …
Helgi Hrafn sá sig knúinn til að útskýra ummæli sín um Kjærsgaard. mbl.is/Hari

Þá sá Helgi Hrafn sig knúinn til að útskýra ummæli sem hann lét falla um Piu Kjærsgaard í kringum hátíðarþingfundinn í júlí, en Ásmundur hafði sagt að Píratar segðu Kjærsgard sömu skoðunar og Adolf Hitler. Í umræðum um útlendingahatur Kjærsgaard kvaðst Helgi aðeins hafa bent á þá sögulegu staðreynd að Hitler hafi einnig verið lýðræðislega kjörinn. „Það er augljóslega ekki það sama og að vera sömu skoðunar. Ég benti á að óþokkar komast til valda þegar fólk kýs óþokka,“ sagði Helgi Hrafn.

Í svari sínu kaus Ásmundur að ávarpa ekki bón Helga Hrafns um að hann drægi sögð ummæli til baka, heldur einblíndi hann á framkomu Pírata gagnvart Kjærsgaard. Hafði hann orð á því að Píratar hefðu ekki veigrað sér við því að „skála við Piu Kjærsgaard og sitja undir ræðum hennar“ á hátíðarþingfundi danska þingsins í síðustu viku.

Þegar þingmenn Pírata gripu inn í fyrir Ásmundi í lok ræðu hans og spurðu hvort hann ætlaði að draga ummæli sín til baka, líkt og Helgi Hrafn óskaði eftir, sagði Ásmundur. „Ég held að þú ættir draga ummæli til baka um að ég sé þjófur áður en ég geri það.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert