Rok og rigning

Reikna má með snörpum vindhviðum við fjöll fram eftir degi, einkum undir Eyjafjöllum, í Mýrdal og Öræfum, samkvæmt athugasemd veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands í morgun.

„Fremur hlýjar umhleypingar með suðlægum og vætusömum lægðagangi. Allhvasst eða hvasst á köflum og talsverð rigning, en mun minni úrkoma fyrir norðan og austan. Líkur á kólni eftir helgi, einkum um landið norðanvert með éljum, en áfram lægðagangur skammt suður af landinu og gætu úrkomusvæði þeirra náð inn á sunnanvert landið með rigningu,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Veðurspá

Allhvöss og sums staðar hvöss vestan- og norðvestanátt með skúrum, en yfirleitt þurrt SA-til. Lægir smám saman í dag og styttir víða upp. 
Vaxandi suðaustanátt seint í kvöld, 10-18 og rigning í nótt, en hægari og lengst af þurrt á N- og A-landi. Úrkomuminna um landi V-vert á morgun.
Hiti 3 til 8 stig að deginum, en 4 til 10 stig á morgun.

Á fimmtudag:

Sunnan 10-18 m/s og víða rigning, einkum á SA-landi, en úrkomulítið NA-lands. Hiti víða 5 til 10 stig. 

Á föstudag:
Suðvestan 10-15 m/s og skúrir um landið vestanvert, en bjartviðri eystra. Snýst í suðaustanátt og fer að rigna SV-til um kvöldið. Hiti 2 til 7 stig. 

Á laugardag:
Hvöss suðvestanátt með rigningu, en úrkomulítið NA-til. Hiti 3 til 10 stig, hlýjast austast. 

Á sunnudag:
Áframhaldandi suðvestanátt og skúrir eða él, en bjartviðri eystra. Kólnar í veðri og frystir inn til landsins um kvöldið. 

Á mánudag:
Vestanátt með rigningu og smám saman hlýnandi veðri, en hægari, úrkomuminna og svalara fyrir norðan. 

Á þriðjudag:
Útlit fyrir breytilega vindátt með rigningu syðst, en stöku éljum fyrir norðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert