Staða geðsjúkra fanga grafalvarleg

Umboðsmaður Alþingis hefur gert forsætisráðherra viðvart vegna skorts á skýrum …
Umboðsmaður Alþingis hefur gert forsætisráðherra viðvart vegna skorts á skýrum svörum frá dóms­mála- og heil­brigðisráðuneyt­i um hvað gera eigi til að tryggja mann­rétt­indi geðsjúkra fanga með full­nægj­andi hætti. mbl.is/Hari

„Í fyrsta lagi held ég að þetta ástand sé grafalvarlegt og búið að vera mjög lengi,“ segir Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, um stöðu geðsjúkra fanga.

Helga Vala Helgadóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, spurði umboðsmann á opnum fundi nefndarinnar í morgun hver hans viðbrögð væru við því að stjórnvöld hafi ekki brugðist við ítrekuðum ábendingum umboðsmanns?

Tryggvi hefur gert forsætisráðherra viðvart vegna skorts á skýrum svörum frá dóms­mála- og heil­brigðisráðuneyt­i um hvað gera eigi til að tryggja mann­rétt­indi geðsjúkra fanga með full­nægj­andi hætti.

Ábendingar umboðsmanns eru ekki nýtilkomnar og vísaði Tryggvi í skýrslu umboðsmanns frá árinu 2013 þar sem kemur fram að brýnt væri að endurskoða geðheilbrigðisþjónustu á Litla-Hrauni.

„Við höfum staðið í þeim sporum að við vildum ljúka þeirri athugun sem var kynnt stjórnvöldum árið 2013 sem felst í því að við setjum fram einhver tilmæli. Það sem gerist hins vegar í millitíðinni er að dómsmálaráðuneytið tekur undir þessa afstöðu og viðurkennir að það sé veruleg hætta á að þessi framkvæmd sé ekki að uppfylla mannréttindakröfur,“ sagði Tryggvi á fundi nefndarinnar.

Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis.
Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hélt að stjórnvöld myndu bregðast við

Tryggvi segir að vandinn er sérstakur þegar stjórnvöld sjálf segja að hlutirnir séu ekki í lagi. „Þá hefði maður nú haldið að stjórnvöld myndu bregðast við þegar svo sterk yfirlýsing er komin fram.“

Hann segir að hann hafi því ekki séð aðra stöðu í málinu en að gera forsætisráðherra grein fyrir málinu. „Hann á að samhæfa þegar brestur á milli ráðuneytanna og ég sé ekki annað en að dómsmálráðuneytið hafi reynt að ganga á eftir svörum frá heilbrigðisráðuneytinu.“

Næstu skref að sögn Tryggva er að bíða eftir svörum. Ef þau berast ekki innan ákveðins tíma verði embætti umboðsmanns Alþingis að ljúka athuguninni og tjá sig endanlega um hana.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert