Stöldrum við á hamstrahjólinu

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á þingi BSRB í morgun.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á þingi BSRB í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Félagslegur stöðugleiki er gríðarlega mikilvægur og jafnmikilvægur og efnahagslegur stöðugleiki. Þetta kom fram í máli Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra á 45. þingi BSRB á Hilton hótel Nordica í morgun.

Hún sagði að ríkisstjórn hennar hefði gert ýmislegt til að stuðla að jöfnuði en auðvitað mætti alltaf gera betur. Hún nefndi til að mynda að kjararáð hefði verið lagt niður í núverandi mynd og tekið yrði upp það fyrirkomulag sem ríki á hinum Norðurlöndunum að laun æðstu embættismanna fylgi almennri launaþróun.

„Ég vona að það verði eitt innlegg í að skapa aukna sátt á vinnumarkaði,“ sagði Katrín.

Minnka skattbyrði þeirra tekjulægstu

Hún sagði að stjórnvöld hefðu ákvæðin tæki til að stuðla að auknu jafnvægi í samfélaginu og aðgerðir þeirra myndu verða lóð á vogarskálar aukins jafnaðar. Nefndi Katrín hækkun barnabóta þannig að þær skerðist ekki við lágmarkslaun og hækkun persónuafsláttar umfram vísitölu.

„Það skiptir máli að breytingar sem við gerum þjóni jöfnunarhlutverki og þessar breytingar eru skref sem skipta máli við að færa skattbyrði af þeim tekjulægstu og þeir eignamestu leggi meira af mörkum,“ sagði Katrín.

Hún kom einnig inn á húsnæðismál og nefndi óhagnaðardrifna leigufélagið Bjarg í því samhengi og að áfram þyrfti að byggja á þeim grunni. Bjarg er leigufélag ASÍ og BSRB en það stefnir að því að 450 íbúðir verði komnar í byggingu hjá félaginu í lok árs og rúmlega þúsund til viðbótar á næstu þremur til fjórum árum. Leigan þar á ekki að vera hærri en fjórðungur ráðstöfunartekna.

Hugsum hvað skiptir í raun og veru máli

Katrín fjallaði stuttlega um hraðann í samfélaginu, þar sem nánast allir þurfa að vera til taks hvenær sem er. „Í þessu hraða samfélagi þar sem allir hlaupa á hamstrahjólinu skiptir máli að staldra við og hugsa hvað skiptir í raun og veru máli,“ sagði Katrín og spurði hvernig það væri hægt að eiga fjölskyldu og vera í vinnu.

Hún sagðist ekki vera þar sem hún væri í dag ef ekki væri fyrir fólk sem byggði upp leikskólakerfi og barðist fyrir fæðingarorlofi, þannig að eðlilegt þyki að taka orlof með börnum og snúa síðan aftur til starfa.

„Ég væri ekki þar sem ég er í dag ef ég hefði ekki getað haft sex mánuði með öllum sonum mínum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert