Lyf og heilsa greiði 4,5 milljónir í bætur

Tveir dómarar skiluðu sérákvæði í málinu.
Tveir dómarar skiluðu sérákvæði í málinu. mbl.is/Golli

Hæstiréttur hefur dæmt Lyf og heilsu til að greiða Apóteki Vesturlands fjórar og hálfa milljón í bætur vegna samkeppnisbrota. Tveir dómarar skiluðu sérákvæði og töldu ekki sannað að Apótek Vesturlands hefði orðið fyrir fjártjóni vegna samkeppnisbrotanna.

Skaðabótamálið má rekja til úrskurðar áfrýjunarnefndar samkeppnismála frá árinu 2010 þar sem staðfest var að Lyf og heilsa hefði á tilteknu tímabili misnotað markaðsráðandi stöðu sína í aðgerðum sem beindust gegn Apóteki Vesturlands. Meðal annars með því að hindra innkomu fyrirtækisins á lyfjasölumarkaðinn á Akranesi með útgáfu vildarkorta og baráttuafslátta. Hæstiréttur staðfesti úrskurðinn árið 2012.

Apótek Vesturlands höfðaði í kjölfarið skaðabótamál og krafðist rúmra 18 milljóna króna í bætur vegna tjónsins sem það taldi sig hafa orðið fyrir vegna aðgerðanna. Í málinu lá fyrir undirmatsgerð með þeirri niðurstöðu að Apótek Vesturlands hefði orðið fyrir tilteknu tjóni, en í yfirmatsgerð var ályktað að fyrirtækið hefði ekki orðið fyrir beinu tapi vegna hinna ólögmætu samkeppnishindrana. Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði Lyf og heilsu af skaðabótakröfunni í janúar á síðasta ári.

Hæstiréttur vísar hins vegar til þess í dómi sínum að gerólíkar forsendur hafi verið lagðar til grundvallar niðurstöðum matsgerðanna. Grunnforsenda yfirmatsgerðar hafi verið haldin slíkum annmarka að ekki væri hægt að byggja á henni um áhrif baráttuafslátta. Hæstiréttur féllst hins vegar á að ekki væri sannað vildarklúbburinn hefði valdið Apóteki Vesturlands tjóni.

Auk skaðabóta var Lyfjum og heilsu gert að greiða málskostnað Apóteks Vesturlands fyrir héraði og Hæstarétti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert