Strætó tilkynnt um gjaldþrotið í gær

Ráðstafanir Strætó miðast við að fyrirtækið Prime Tours, sem tilkynnt …
Ráðstafanir Strætó miðast við að fyrirtækið Prime Tours, sem tilkynnt hefur verið um gjaldþrot á, hætti akstri fyrir akstursþjónustu fatlaðra. ljósmynd/norden.org

Strætó hefur þegar gert ráðstafanir sem miðast við að fyrirtækið Prime Tours, sem tilkynnt hefur verið um gjaldþrot á, muni hætta akstri samkvæmt rammasamningnum í ljósi þeirrar óvissu sem ríkir um framhaldið.  

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Strætó, sem segir skipaðan skiptastjóri þrotabús Prime Tours ehf. hafa tilkynnt Strætó í gær að félagið hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta og að hann færi með forræði þess.

„Samdægurs óskaði Strætó eftir því að skiptastjóri upplýsti hvort þrotabúið hygðist neyta heimildar í lögum um gjaldþrotaskipti og taka við réttindum og skyldum fyrirtækisins samkvæmt rammasamningi um ferðaþjónustu fatlaðs fólks og fatlaðra skólabarna,“ segir í tilkynningunni.

Formlegrar afstöðu skiptastjóra þrotabúsins sé enn að vænta, en Strætó hafi þegar gert ráðstafanir sem miðist við að fyrirtækið hætti akstri samkvæmt rammasamningnum í ljósi óvissunnar sem ríkir um framhaldið.  

Mun akstursþjónusta Strætó gera allt sem í hennar valdi stendur til þess að koma í veg fyrir að notendur ferðaþjónustunnar verði fyrir óþægindum vegna þessa.

Komi síðan til þess að þrotabúið hætti akstri samkvæmt rammasamningnum „mun Strætó verða að grípa til viðeigandi úrræða til að tryggja að ferðaþjónustan uppfylli áfram þær kröfur sem til hennar eru gerðar, bæði næstu daga og það sem eftir lifir af gildistíma núverandi rammasamninga, í samræmi við þau lög og reglur sem gilda um innkaup opinberra aðila.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert