Sýknaður af ákæru um kynferðisbrot gegn barni

Héraðsdómur Reykjaness
Héraðsdómur Reykjaness mbl.is/Ófeigur

Karlmaður var á mánudaginn sýknaður í héraðsdómi af ákæru um kynferðisbrot gegn dóttur fyrrverandi sambýliskonu sinnar, en dóttirin er á leikskólaaldri. Hann var hins vegar fundinn sekur um að hafa í vörslum sínum farsíma með 86 myndum sem sýndu börn á kynferðislegan hátt.

Málið kom upp í mars á síðasta ári eftir að móðir stúlkunnar lét barnaverndaryfirvöld vita af áhyggjum sínum eftir að dóttirin hafi greint henni frá mögulegum brotum mannsins. Var maðurinn í framhaldinu handtekinn og settur í gæsluvarðhald og dóttirin tvisvar yfirheyrð í Barnahúsi.

Í fyrri skýrslutökunni sagði stúlkan að maðurinn hefði stundum gist á heimili hennar og móðurinnar, auk þess sem drengir hans hefðu einnig gist þar. Neitaði hún því í yfirheyrslunni að einhver hefði gert eitthvað „við hennar einkastaði“ og bætti við að hún myndi segja stopp ef einhver vildi gera það. Í dóminum hafa lýsingar af athöfnum mannsins verið teknar út, en lesa má úr textanum að maðurinn hafi strokið stúlkunni en hún neiti að það hafi verið á stöðum sem þyki ekki við hæfi.

Starfsmaður Barnahúss sagði móðurinni eftir skýrslutökuna að barnið hefði ekki sagt sér allt sem móðirin hefði greint barnavernd að stúlkan hefði sagt sér.

Í síðari skýrslutökunni segir stúlkan hins vegar frá öðrum athöfnum mannsins en eins og áður eru nánari lýsingar teknar út úr dóminum.

Kom fram í máli vitna sem komu fyrir dóminn, meðal annars föður stúlkunnar og sambýliskonu hans, leikskólastjóra og í máli móðurinnar, að hegðun stúlkunnar hafi breyst á tímabilinu. Hún hafi meðal annars ekki viljað fara á leikskólann, verið vælin, erfið og ólík sjálfri sér og verið lystarlaus.

Maðurinn neitaði sök í málinu frá upphafi.

Í niðurstöðu dómsins segir að í fyrri skýrslutöku í Barnahúsi komi ekkert fram sem bendi til þess að frásögn stúlkunnar af meintu broti mannsins, sem hún sagði móður sinni frá skömmu áður, ætti við rök að styðjast. Hún hafi sjálf sagt að enginn hafi gert neitt við „hennar einkastaði.“

Þá segir í dóminum að koja og „kósýhornið“ undir kojunni, þar sem stúlkan hafi greint móður sinni og starfsmanni Barnahúss frá að meint brot hafi átt sér stað, hafi ekki verið á heimili þeirra mæðgna þegar brotin áttu að hafa átt sér stað.

Þá segir jafnframt í dóminum að það veki „óneitanlega athygli“ hvernig stúlkan hafi breytt viðhorfi sínu gegn manninum frá fyrstu skýrslutöku, en móðirin hafði eftir hana greint dóttur sinni frá því að hún þyrfti að fara aftur í skýrslutöku þar sem hún væri spurð á ný um hvað maðurinn hafi gert við sig. Hafi stúlkan fyrst mótmælt því og sagt að hún hafi greint frá öllu. Segir í dóminum að ósagt skuli látið hvort „stúlkan hafi við orð móður sinnar viljað þóknast henni.“

Segir í dóminum að framburður stúlkunnar hafi verið misvíandi í nokkrum atriðum og að því leyti ótraustur og þá hafi ekki verið hægt að útiloka áhrif annarra á framburð hennar. Þá hafi neitun mannsins verið staðföst. Í því ljósi „þykir ekki unnt að slá því föstu, svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa, að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem hann er sakaður um samkvæmt þessum ákærulið,“ eins og segir í dóminum.

Maðurinn var hins vegar fundinn sekur um vörslu á ljósmyndunum. Bar hann við að hann hefði verið að skoða klámsíður á netinu og líklega „ýtt á einhvern hlekk sem fært hafi hann í ógáti inn á einhverja aðra netsíðu, og hafi myndirnar þá vistast óumbeðið í síma hans.“

Taldi dómurinn skýringar hans ekki trúverðugar. Til viðbótar játaði maðurinn vörslu á 1,44 grömmum af kókaíni.

Var honum gert að greiða 300 þúsund í ríkissjóð auk þess sem síminn og kókaínið var gert upptækt. Sakarkostnaður og málsvarnarlaun verjanda mannsins og réttargæslumanns stúlkunnar, samtals upp á um 3,2 milljónir, greiðast úr ríkissjóði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert