„Týpískt íslenskt haustveður“

Fólk er minnt á að ganga frá lausum munum fyrir …
Fólk er minnt á að ganga frá lausum munum fyrir morgundaginn, en þá er spáð leiðindaveðri um allt land. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta verður týpískt íslenskt haustveður,“ segir Birta Líf Kristinsdóttir, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, um leiðindaveðrið sem spáð er á morgun.

Í nótt má búast við hvassviðri sunna og suðvestanlands, en í fyrramálið bætir í vind um allt land. Á morgun er búist við suðvestan stormi sem talið er að verði verstur á norðvestanverðu landinu, að Tröllaskaga. Seinni partinn á morgun og annað kvöld gætu hviður þar við fjöll farið upp í 35 til 40 metra á sekúndu. Storminum mun fylgja töluverð úrkoma, að sögn Birtu.

Hún segir spána fyrir höfuðborgarsvæðið heldur ekki skemmtilega, er þar er búist við suðvestanátt, 15 til 20 metrum á sekúndu og rigningu. „Það er um að gera að festa allt sem getur valdið einhverjum usla og fólk vill ekki missa. Þetta verður leiðinlegt haustveður og örugglega fáir sáttir.“

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu birti færslu á Facebook fyrr í kvöld þar sem fólk er minnt á að ganga fá lausum munum til að forðast tjón og vegfarendur með aftanívagna eða á ökutækjum sem taka á sig mikinn vind beðnir að kanna aðstæður áður en lagt er af stað. „Enginn vill þurfa að útskýra fyrir nágrönnum sínum að þetta sé þeirra trampólín eða sólbekkur sem hafi fokið af stað,“ segir í færslunni, þar sem jafnframt er varað viðhvössum sviptivindum í efri byggðum og við háar byggingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert