Ólafur: Barátta sem má ekki tapast

Ólafur Ragnar Grímsson var gestur Heimis Más Péturssonar á Víglínunni …
Ólafur Ragnar Grímsson var gestur Heimis Más Péturssonar á Víglínunni í dag. Skjáskot/Stöð 2

Ólafur Ragnar Grímsson, formaður Hringborðs norðurslóða og fyrrverandi forseti, segir framtíð norðurslóða og orkubyltingu vera sömu hliðina á sama peningnum. Ólafur var gestur í Víglínunni á Stöð 2 hjá Heimi Má Péturssyni. Sagði hann þar að tapist baráttan gegn hnattrænni hlýnun með hækkandi yfirborði sjávar og ofsaveðri verður „framtíð barna okkar og barnabarna stórhættuleg, og af því tagi sem við hefðum aldrei viljað búa við sjálf.“

Arctic Circle ráðstefnan hófst í Hörpu í gær og stendur yfir þar til á sunnudag. Á ráðstefnunni verða rædd ýmis málefni sem snúa að norðurslóðum. „Það hefur verið lykilatriði í uppbyggingu og stjórnun Arctic Circle að blanda ekki deilumálum í öðrum heimshlutum inn í þessa umræðu,“ sagði Ólafur Ragnar og bætti við að Arctic Circle væri þverfaglegur vettvangur fyrir vísindamenn, stjórnmálamenn, atvinnulífið og almenning til skoðanaskipta.

„Ef Grænlandsjökull minnkar um fjórðung hækkar sjávaryfirborð um tvo metra um allan heim. Ef ísinn heldur áfram að bráðna verður Singapúr eða Arabísku furstadæmin ekki til eins og þú þekkir þau í dag,“ sagði Ólafur. Sagði hann sömuleiðis að málefni norðurslóða vektu mikinn áhuga í Kína, Japan og Kóreu þrátt fyrir fjarlægðina vegna ofsaveðurs í Asíu sem rekja megi að verulegu leyti til bráðnunar sjávaríssins á norðurslóðum.

Okkar næsta nágrenni er þungamiðjan í örlögum jarðar

„Við höfum frá upphafi þessarar aldar séð nýja heimsmynd. Okkar næsta nágrenni er þungamiðjan í örlögum jarðarinnar á næstu áratugum og öldum. Öll forysturíki heims eru að koma til sögunnar með margvíslegum hætti. Við Íslendingar erum allt í einu komnir í þá stöðu að svæðið í kringum okkur er orðin hin nýja þungamiðja þar sem framtíð jarðar mun ráðast á komandi áratugum.“

Spurður hvort hann væri bjartsýnn á að mannkyninu takist að bregðast við þeirri vá sem nú stendur fyrir dyrum sagðist Ólafur bjartsýnn að eðlisfari, en raunsær. „Ég trúi að við séum að sjá öldu breytinga í átt að hreinni orku sem muni hafa afgerandi áhrif á loftslag jarðarinnar og framtíðina,“ sagði Ólafur og nefndi að Kína væri orðið leiðandi í nýtingu grænnar orku, risatæknifyrirtækin fjárfestu í gagnaverum sem knúin eru eingöngu af hreinni orku og arabísku furstadæmin væru stórtæk í fjárfestingum í sólarorku á Spáni og vindorku í Bretlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert