„Töluvert mikið álag á spítalanum“

Álagið er mikið á Landspítalanum og geta eðlilegar sveiflur í …
Álagið er mikið á Landspítalanum og geta eðlilegar sveiflur í komum gert starf á bráðamóttöku erfitt. mbl.is/Ómar Óskarsson

Það er viðvarandi hátt álag á Landspítalanum sem veldur því að eðlilegar sveiflur í komum á spítalann geta leitt til erfiðleika á bráðamóttöku eins og varð í gær, að því er Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi, segir í samtali við mbl.is.

Landspítalinn birti tilkynningu á Facebook-síðu sinni í gær þar sem greint frá gríðarlegu álagi á bráðamóttöku og var fólk með minni hátt­ar veik­indi eða smá­vægi­leg lík­ams­tjón hvatt til að leita til sinn­ar heilsu­gæslu eða Lækna­vakt­ar­inn­ar í Aust­ur­veri.

„Það er enn þá töluvert mikið álag á spítalanum og spítalinn er enn á álagsstigi tvö af þremur álagsstigum, sem er sama stig og í gær. Álagið í heild hefur þó minnkað á bráðamóttökunni miðað við gærdaginn,“ segir Jón. „Margar deildir spítalans eru með sjúklinga umfram það sem þær ættu að vera með,“ bætir hann þó við.

Jón Magnús Kristjánsson yfirlæknir.
Jón Magnús Kristjánsson yfirlæknir. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Ástandið viðkvæmt

„Í sjálfu sér er þetta bara það að ástandið á spítalanum er orðið viðkvæmt vegna lokunar rúma og fjölda sjúklinga sem eru að bíða eftir að komast á hjúkrunarheimili,“ segir Jón.

Spurður hvað olli álaginu á bráðamóttöku í gær segir hann lítið mega „út af bregða og voru þetta bara almenn veikindi og ekkert sérstakt sem kom upp á. Það eru bara eðlilegar sveiflur í komu sjúklinga og vegna þess hversu viðkvæmt ástandið er af þessum tveimur ástæðum þá gerist þetta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert