„Vel haldið utan um okkur“

Búist er við að farþegar sem áttu að lenda á …
Búist er við að farþegar sem áttu að lenda á Keflavíkurvelli í morgun leggi af stað um miðnætti í kvöld frá Kanada. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er mjög vel haldið utan um okkur,“ segir Þórdís Ósk Sigtryggsdóttir, ein þeirra um 160 farþega sem voru um borð í flugvél Icelandair á leið frá Orlando á Flórída sem skyndilega þurfti að lenda á Saguenay Bagotville-flugvellinum í Kanada, vegna sprungu í rúðu í flugstjórnarklefa vélarinnar.

„Þetta er lítill flugvöllur og þetta tók svolítinn tíma þar sem þetta var um nótt og þurfti að kalla út tollara, rútubílstjóra og koma okkur fyrir á hótelum. En þetta var allt Icelandair til sóma,“ segir Þórdís.

Þegar farþegum var tilkynnt um stöðu var mikil stilling meðal farþega að sögn hennar. „Ég hugsa að fólk hefur eflaust hugsað, bíddu í hverju er ég lent. En allir tiltölulega rólegir. Þetta gerðist nokkuð hratt, svona um tuttugu mínútur frá því að ljósin blikkuðu,“ segir Þórdís. „Flugstjórinn var mjög rólegur og yfirvegaður og sagði allt under control“. Hann róaði okkur og flugfreyjurnar voru allar yfirvegaðar,“ bætir hún við.

Samkvæmt Þórdísi er áætlað að ný vél taki við farþegunum um klukka átta að staðartíma, sem er á miðnætti íslenskum tíma. „Þannig að við erum að koma um sólarhring seinna, sem er kannski verst fyrir þá sem áttu tengiflug til Evrópu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert