Ekki eins og rúða í stofuglugganum

Guðjón segir að gluggar séu hluti af margþættu öryggiskerfi vélanna.
Guðjón segir að gluggar séu hluti af margþættu öryggiskerfi vélanna. mbl.is/Eggert

Brot í rúðu flugstjórnarklefa í farþegavél Icelandair sem kom upp í flugi frá Orlando til Reykjavíkur í gær var aðeins í ysta lagi rúðunnar, sem er eitt lag af mörgum. Þetta segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, í samtali við mbl.is. 

Tom Podo­lec, ljósmyndari og flugáhugamaður, birti mynd af skemmdunum á rúðunni á Twitter-síðu sinni í dag, en líkt og sjá má á myndinni hér fyrir neðan virðist rúðan vera mölbrotin.

Guðjón segir að atvik sem þessi séu fátíð. „Gluggar í stjórnklefum farþegaþota eru hannaðir sem hluti af margþáttuðu öryggiskerfi vélanna. Rúðurnar eru gerðar úr nokkrum lögum níðsterkra efna til þess að tryggja að þó að sprunga komi í eitt laganna þá haldi hinn,“ segir Guðjón.

Þá segir hann jafnframt að gluggar vélanna séu kannaðir fyrir hvert flug. „Ástand glugganna og hitakerfisins í þeim er hluti af öryggisskoðun fyrir hvert flug auk þess sem skipt er um þennan búnað eftir atvikum í reglulegum stærri öryggisskoðunum,“segir Guðjón. Atvik af þessu tagi komi fyrir endrum og sinnum en hönnun rúðanna eigi að hindra að þær brotni í gegn þó svo að brot komi í eitt lag af mörgum. „Þetta er ekki venjuleg rúða eins og í stofuglugganum heima hjá þér,“ segir Guðjón.

Guðjón segir að á þessu stigi sé ekki hægt að segja nákvæmlega til um hvað það var sem orsakaði brotið í rúðunni en það verði skoðað á næstu dögum.

Vélin var líkt og áður sagði á leið frá Or­lando í Flórída til Kefla­vík­ur aðfaranótt laug­ar­dags með 160 farþega um borð. Þegar flug­menn vél­ar­inn­ar urðu var­ir við sprung­ur í vinstri framrúðu í flug­stjórn­ar­klef­an­um var vél­inni lent á næsta flug­velli, Sagu­enay Bacot­ville-flug­vell­in­um í Qu­e­bec í Kan­ada.




mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert