Miklar skemmdir voru á rúðunni

Rúða vélarinnar var töluvert mikið brotin.
Rúða vélarinnar var töluvert mikið brotin. mbl.is/Árni Sæberg

Flugáhugamaður og ljósmyndari hefur birt mynd af skemmdunum sem urðu á rúðu farþegavélar Icelandair þegar hún var á leið frá Orlando í Flórída til Keflavíkur aðfaranótt laugardags. Þegar flugmenn vélarinnar urðu varir við sprungur vinstri framrúðu í flugstjórnarklefanum var vélinni lent á næsta flugvelli, Saguenay Bacotville-flugvellinum í Quebec í Kanada. 160 farþegar voru um borð.

Tom Podolec sérhæfir sig í ljósmyndun flugvéla og veitir upplýsingar um atvik sem koma upp í flugi á Twitter-síðu sinni. Hann var einn þeirra sem greindi frá því í gær að vél Icelandair hefði verið snúið við og henni lent vegna neyðartilfellis. Eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan var rúðan töluvert mikið brotin.

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, sagði í samtali við mbl.is að samkvæmt verklagi hefði vélinni verið lent á næsta flugvelli þegar flugmenn urðu varir við sprungurnar. „Það gekk allt sam­an vel og tíðinda­lítið,“ sagði hann.

Þórdís Ósk Sigtryggsdóttir var um borð í vélinni og sagði í samtali við mbl.is í gær að mikil stilling hefði verið meðal farþega. „Ég hugsa að fólk hef­ur ef­laust hugsað, bíddu í hverju er ég lent? En all­ir til­tölu­lega ró­leg­ir. Þetta gerðist nokkuð hratt, svona um tutt­ugu mín­út­ur frá því að ljós­in blikkuðu,“ sagði Þór­dís. „Flug­stjór­inn var mjög ró­leg­ur og yf­ir­vegaður og sagði allt und­er control“. Hann róaði okk­ur og flug­freyj­urn­ar voru all­ar yf­ir­vegaðar,“ bæt­ti hún við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert