Sóttu mikið slasaðan skipverja

Þyrla Landhelgisgæslunnar.
Þyrla Landhelgisgæslunnar. mbl.is/Árni Sæberg

Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-GNÁ, var kölluð út til þess að sækja mikið slasaðan skipverja filippeysks flutningaskips nú fyrir hádegi. Skipið var statt um 60 sjómílur suðaustan við Vestmannaeyjar þegar þyrlu Landhelginsgæslunnar bar að á ellefta tímanum í dag. Þetta staðfestir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, í samtali við mbl.is.

Beiðni um aðstoð frá skipstjóra flutningaskipsins barst kl. eitt í nótt, en maðurinn hafði fallið úr stiga innanborðs í skipinu. Var skipið á leið frá Grundartanga þegar slysið varð. 

„Staðan var metin fram eftir nóttu. Síðan undir morgun þá var tekin ákvörðun um það, eftir samráð við lækni, að sækja manninn,“ segir Ásgeir.  

Vélin lenti með manninn á Landspítalanum í Fossvogi kl. 12:48 og er hann sagður alvarlega slasaður. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert