Dæmdur í fangelsi fyrir fjölda brota

Maðurinn fékk 15 mánaða fangelsidóm fyrir hátt í tuttugu brot …
Maðurinn fékk 15 mánaða fangelsidóm fyrir hátt í tuttugu brot af ýmsu tagi. mbl.is/Ófeigur

Þrítugur karlmaður hefur verið dæmdur í 15 mánaða fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir margvísleg brot á borð við líkamsárásir, fjársvik og þjófnað, auk fjölda fíkniefna- og umferðarlagabrota. Umferðarlagabrotin voru alls níu talsins, en í heildina voru ákæruliðirnir hátt í tuttugu talsins.

Maðurinn játaði öll brot sín skýlaust fyrir dómi, en hann hefur verið í gæsluvarðhaldi frá 5. ágúst sl. Þá hafði hann verið handtekinn fyrir rán í verslun Iceland við Arnarbakka, sem átti sér stað að kvöldi laugardagsins 4. ágúst. Hann ásamt öðrum manni ógnaði starfsmanni verslunarinnar með hamri og skrúfjárni og neyddi hann til að opna sjóðsvél verslunarinnar og láta af hendi 52.500 kr. í reiðufé, samkvæmt ákæru.

Sá tími sem maðurinn hefur verið í gæsluvarðhaldi vegna ránsins dregst frá fangelsidómi hans.

Maðurinn var dæmdur fyrir tvær líkamsárásir, annars vegar fyrir að hafa ráðist á fyrrverandi unnustu sína í maí í fyrra og fyrir að slá mann hnefahöggi í andlitið í Hagkaup í Spönginni í byrjun september í fyrra. Manninum er gert að greiða þeim sem hann sló hnefahöggi í Hagkaup skaðabætur, alls 162.192 kr. með vöxtum og 100.000 krónur að auki í málskostnað.

Þá var hann dæmdur fyrir fjársvik í tveimur liðum, en þau brot áttu sér stað í janúar á þessu ári. Annars vegar blekkti hann starfsmann N1 á Ártúnshöfða til þess að endurgreiða sé 2.900 kr. fyrir fyrirframgreitt símkort með 10 GB gagnamagni, en maðurinn hafði komið öðru símkorti fyrir í pakkningunni. Hins vegar blekkti hann leigubílstjóra til þess að aka sér frá N1 á Ártúnshöfða og í Kópavog, án þess að greiða fyrir farið.

Sem áður segir er maðurinn sekur um fjölda fíkniefnalagabrota, en í heildina voru gerð upptæk yfir 140 grömm af kannabisefnum, tæp 50 grömm af amfetamíni og minna magn af ýmsum eiturlyfjum öðrum. Þá gerði lögregla upptæk eitt stunguvopn og tvö hnúajárn í vörslu mannsins.

Alls er manninum gert að greiða tæpar 1,6 milljónir króna í málskostnað og málvarnarlaun skipaðs verjanda síns, rúmar 800.000 krónur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert