Niðurlægjandi að pissa ofan í glas

Theódór Helgi var handtekinn af lögreglunni á Suðurnesjum í sumar.
Theódór Helgi var handtekinn af lögreglunni á Suðurnesjum í sumar. mbl/Arnþór

„Ég kom bara af fjöllum. Eftir að ég fékk þetta bréf hélt ég að það væri búið að fella allt niður,“ segir Theódór Helgi Helgason. Hann er ósáttur við gang mála eftir að hafa verið handtekinn af lögreglunni á Suðurnesjum 16. júní vegna gruns um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna.

Hann var beðinn um að gefa lögreglunni þvagsýni en harðneitaði því. Í samtali við blaðamann segir hann það vera niðurlægjandi að pissa ofan í glas á meðan lögregluþjónn stendur fyrir framan hann og fylgist með.

„Það ógeðslegasta sem ég veit um“

„Ég er búinn að lenda í svona þvagprufum áður. Það er ástæða fyrir því að ég steig niður löppinni og sagði „hingað og ekki lengra“. Ég nenni ekki að vera í skjálftakasti í hvert skipti sem ég sé lögregluna koma og stoppa mig. Það að standa fyrir framan lögreglumanninn á meðan hann horfir á kynfærin á þér meðan þú ert að míga er það ógeðslegasta sem ég veit um.“

Í staðinn bauðst hann til að veita lögreglunni munnvatnssýni en hún kvaðst ekki eiga réttu tækin til að taka þau. Lögreglan fékk í framhaldinu leyfi hans til að taka blóðprufu og var Theódór tilbúinn til að vera próflaus meðan á rannsókn málsins stæði.

Blóðprufa. Mynd úr safni.
Blóðprufa. Mynd úr safni. AFP

Stöðvaður á nýjan leik 

Rúmum tveimur mánuðum síðar fékk hann bréf frá lögreglunni þar sem greint var frá því að rannsókninni hefði verið hætt þar sem engin ávana- og fíkniefni hefðu mælst í blóðrannsókninni.

Þar með hélt Theódór Helgi að búið væri að fella niður kæru og málinu væri lokið en brá í brún þegar hann var stöðvaður af lögreglunni á nýjan leik er hann var að aka í vinnuna í síðustu viku. Þar fékk hann að vita að hann hefði keyrt próflaus og að hann fái ekki ökuprófið aftur fyrr en ári eftir að hann var fyrst tekinn, eða í júní á næsta ári. Hann afhenti lögreglunni ökuskírteinið sitt, sem hann hafði ekki verið með á sér þegar hann var handtekinn á sínum tíma, auk þess sem bíllinn hans var gerður upptækur.

125 þúsund króna sekt

Theódór Helgi, sem tekur fram að hann sé með hreint sakarvottorð, fékk 125 þúsund króna sekt fyrir að aka án ökuréttinda, svo lengi sem hann greiðir innan 30 daga. „Ég er ekki búinn að fá neitt bréf um það frá lögreglustjóranum eða sýslumanni að ég sé próflaus í ár. Ég bara hélt að þeim myndi ekki detta í hug að gera svona lagað,“ segir hann og bætir við að sama við hvern hann hefur talað á Suðurnesjum segi allir að reglurnar séu þannig að hann missi prófið í eitt ár vegna þess að hann neitaði að gefa lögreglunni þvagsýni, sama hvort hann sé saklaus eða ekki.

Einnig nefnir hann að samkvæmt samtölum sínum við lögmenn sé lögreglan á Suðurnesjum sú eina sem beitir þessum viðurlögum, sama hvort sem það mælist í mönnum ávana- og fíkniefni eða ekki.

Missti vinnuna og barn á leiðinni

Theódór Helgi var að vinna á bílaleigu í Reykjanesbæ þegar hann var handtekinn en missti vinnuna um leið og hann missti prófið. Þegar hann hélt að málið hefði verið látið niður falla fékk hann vinnuna aftur en núna lítur út fyrir að hann missi hana á nýjan leik, þegar misskilningurinn varðandi bílprófið hefur verið leiðréttur. Þar fyrir utan á hann von á barni sem er væntanlegt í heiminn 10 dögum áður en hann á að fá prófið aftur á næsta ári.

„Lögreglan að biðja um hærri laun á meðan hún er að svipta fólk skírteinum fyrir að vera saklaust og setja á atvinnuleysisbætur,“ segir hann, grautfúll yfir stöðu mála. 

Ætlar frekar að sitja inni

Spurður hvort hann ætli að borga sektina segir hann það ekki koma til greina enda hefur hann ekki efni á því. „Ég sit frekar inni. Þá verður það í fyrsta skipti sem ég fer í fangelsi,“ segir hann og bendir því allt til þess að hann sitji í tíu daga í fangelsi vegna þessa sérkennilega máls.

mbl.is/Eggert

Benti á sektarákvæði í umferðarlögum

Alda Hrönn Jóhannesdóttir skrifaði undir bréfið sem Theódór Helgi fékk frá lögreglunni á Suðurnesjum í júní þar sem fram kom að ekkert athugavert var við blóðprufuna sem var tekin af honum. Í samtali við mbl.is kvaðst hún ekki geta tjáð sig um einstaka mál. Benti hún á reglur um umferðarlög varðandi sektarákvæði.

Þar kemur fram í 102. grein að ef ökumaður hefur neitað að veita aðstoð við rannsókn máls skal hann sviptur ökurétti í að minnsta kosti eitt ár.

Þar er einnig vísað í 47. grein laganna þar sem fram kemur að lögreglan geti fært ökumann til rannsóknar á öndunar-, svita- og munnvatnssýni eða til blóð- og þvagrannsóknar ef ástæða er til að ætla að hann hafi brotið lög um akstur undir áhrifum.

Engar þvagprufur í nýju frumvarpi

Í nýju frumvarpi til umferðarlaga, sem er til skoðunar á Alþingi og lagt er til að taki gildi 1. janúar 2020, er í umfjöllun um 52. grein kveðið á um að ekki verði lengur tekin þvagprufa af ökumönnum til að staðreyna grunsemdir um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna, heldur eingöngu blóðprufa.

Ástæðan fyrir þessari breytingu er sú að þegar ávana- og fíkniefni, eða óvirkt umbrotsefni þess, mælist aðeins í þvagi ökumanns en ekki blóði sé almennt hægt að álykta að efnisins hafi verið neytt en að ekki sé lengur um það að ræða að ökumaður sé undir áhrifum þannig að hann teljist óhæfur til að stjórna ökutækinu örugglega.

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þvagrannsókn „verulegt inngrip í líkama“

Í umfjölluninni kemur einnig fram að nauðsynlegt sé að kveða á um með skýrari hætti heimild til að beita ökumann valdi ef hann neitar að hlíta rannsókn. „Ein tegund líkamsrannsóknar skv. 2. mgr. er þvagrannsókn sem felur í sér verulegt inngrip í líkama manns. Þvagrannsókn er úrræði sem nota þarf í minna mæli vegna framangreindrar breytingar í 50. gr. Að þessu virtu, og í ljósi eðlis þessa rannsóknarúrræðis, er lagt til með 4. mgr. að þvagrannsókn verði aðeins beitt, án ótvíræðs samþykkis ökumanns, að fyrir liggi úrskurður dómara samkvæmt lögum um meðferð sakamála, sbr. nú lög nr. 88/2008.“ Þar er m.a. horft til grundvallarreglu 71. greinar stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífs.

Hvað refsinguna varðar við að neita að aðstoða lögregluna við rannsókn máls er lagt til í 102. grein að lágmarkssviptingartími ökuprófs verði áfram eitt ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert