Grunaður um að koma ekki til aðstoðar

Lögreglan yfirheyrði manninn í gær.
Lögreglan yfirheyrði manninn í gær. mbl/Arnþór

Maðurinn sem var handtekinn vegna andláts ungrar konu á heimili sínu á Akureyri á sunnudagsmorgun er grunaður um að hafa ekki komið henni til aðstoðar.

Maður­inn er tal­inn hafa verið á vett­vangi þegar kon­an lést.

Þetta staðfestir Eyþór Þorbergsson hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra við mbl.is og vísar þar í gæsluvarðshaldsúrskurð yfir manninum sem var kveðinn upp í Héraðsdómi Norðurlands eystra í gær.

Ekki náðist að yfirheyra manninn á sunnudaginn sökum lyfjaáhrifa en það var aftur á móti gert í gær. Hann hefur ekkert verið yfirheyrður í dag. „Þessi yfirheyrsla var að okkar mati ekki fullnægjandi,“ segir Eyþór og bendir á að taka þurfi af honum aðra skýrslu.

Hann segir lögregluna hafa rennt blint í sjóinn þegar rannsóknin hófst og enn sé ekki vitað með vissu hvað gerðist. Hugsanlega mun það skýrast betur á morgun en þá á hann von á niðurstöðu krufningar.

Spurður hvort maðurinn sé grunaður um að hafa ráðið konunni bana segir hann ekki vera grunsemdir uppi um það, eins og staðan er núna.

Með muni sem tilheyrðu konunni

Uppfært kl. 16:45:

Fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni á Norðurlandi eystra vegna málsins að lögreglan hafi notið aðstoðar tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu við vettvangsrannsókn og er henni lokið.

Við handtöku mannsins fundust munir sem hann hafði í vörslum sínum en tilheyrðu konunni. Húsleit fór í dag fram á dvalarstað mannsins með hans samþykki. Þar var lagt hald á síma og tölvubúnað sem verður tekinn til rannsóknar.

Maðurinn og konan þekktust og höfðu verið í samskiptum kvöldið áður en hún lést.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert