Jón leiðir hóp um félagsleg undirboð

Jón Sigurðsson er formaður samstarfshópsins.
Jón Sigurðsson er formaður samstarfshópsins. mbl.is/Friðrik Tryggvason

Jón Sigurðsson, fyrrverandi ráðherra og seðlabankastjóri, er formaður nýs samstarfshóps sem Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, hefur skipað til að sporna gegn félagslegum undirboðum á innlendum vinnumarkaði. Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins.

Samstarfshópurinn mun leggja áherslu á að „tryggja samstarf þeirra aðila sem eftirlit hafa á innlendum vinnumarkaði til að tryggja að ef upp koma alvarleg mál séu þau til lykta leidd og þeir sem brotlegir eru dregnir til ábyrgðar“, samkvæmt tilkynningu ráðuneytisins. Þannig á að draga úr líkum á því að atvinnurekendur komist upp með að brjóta gegn ákvæðum laga eða ganga gegn kjarasamningum.

Hlutverk samstarfshópsins er meðal annars að leggja til leiðir sem þykja vænlegar til árangur hvað þetta varðar, en honum er einnig ætlað að leggja til „sameiginleg markmið eftirlitsaðila á vinnumarkaði og skilgreina mælikvarða til að meta árangur þeirra aðgerða sem lagðar verða til af hálfu hópsins“.

Oddur Ástráðsson lögmaður mun starfa með hópnum, en aðrir nefndarmenn eru skipaðir samkvæmt tilnefningum ráðuneyta, eftirlitsstofnana, lögreglu og skattayfirvalda, samtaka atvinnulífsins, sveitarfélaga og stéttarfélaga.

Hópnum er ætlað að skila ráðherra skýrslu með niðurstöðum og tillögum í byrjun febrúar á næsta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert