Var fjárfestingaleiðin misnotuð?

Oddný G. Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar.
Oddný G. Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert

„Háar fjárhæðir hafa komið til landsins í gegnum fjárfestingarleið Seðlabankans og eigendur fengið þar verulegan gróða. Aðeins opinber rannsókn getur aflétt þeirri leynd sem yfir þeirri leið ríkir,“ sagði Oddný Harðardóttir, þingkona Samfylkingarinnar á Alþingi.

Hún sagði að við hefðum verið minnt á í fréttaskýringaþættinum Kveik að peningar streymdu skattfrjálst út úr íslenska efnahagskerfinu fyrir hrun. Hún vill vita hvort sömu aðilar fengu háar fjárhæðir afskrifaðar frá bönkunum og tóku þátt í fjárfestingarleið Seðlabankans eða gjaldeyrisútboðum.

Svo virðist sem í einhverjum tilvikum hafi eignarhaldsfélög gagngert verið stofnuð til að skuldsetja þau. Lánsféð hafi síðan verið fært til aflandsfélaga án þess að um nokkur viðskipti hafi í raun verið að ræða og jafnvel reynt að hylja slóðina með flóknum millifærslum,“ sagði Oddný og spurði Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra hvort hann væri ekki sammála því að þetta yrði að upplýsa og að skattrannsóknarstjóra yrði gert að rannsaka málið fljótt og vel.

Verðum við ekki að vera viss um að fjárfestingarleið Seðlabankans hafi ekki verið misnotuð með illa fengnu fé?

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Eggert

Bjarni sagði að eftirlitsstofnanir eigi að sinna öllum rökstuddum vísbendingum um að lög séu brotin. 

Mér fannst hins vegar þingmaður fara dálítið úr einu í annað. Þingmaður samþykkti á sínum tíma m.a. að hér yrðu á landi í gildi reglur sem gerðu beinlínis löglegt að eiga fé á aflandssvæðum. Það er ekki hægt annars vegar að setja slíka lagasetningu hér í þessum sal og hins vegar að úthrópa alla þá sem fylgja þeim lögum,“ sagði Bjarni.

Hann sagði það annað mál að þingmenn hafi sammælst um að ganga á eftir öllum upplýsingum um að farið hafi verið á svig við lög og að hann hafi svarað Oddnýju um hvernig þau mál gangi. „Í því svari kom fram að á þessari stundu meta menn það svo að allt að 15 milljörðum af skattstofni kunni að hafa verið haldið eftir og ekki gefið upp, að uppistöðu til fjármagnstekjur sem er þá 20% af viðkomandi skattstofni,“ sagði Bjarni.

Oddný sagði að það hefði tekið Bjarna fimm mánuði að svara spurningum hennar, sem hann minntist á. Hún sagði augljóst að skattrannsóknarstjóri gæti ekki klárað rannsókn á málum tengdum Panamaskjölum, 187 málum, og rannsókn á slóð peninga í gegnum fjárfestingaleið Seðlabanka og gjaldeyrisútboð.

Bjarni sagði að ákveðið hefði verið á sínum tíma að opna fyrir fjárfestingaleið Seðlabankans og að kallað hafi verið eftir því að menn kæmu með gjaldeyri inn í landið.  „Ef þingmaður er að spyrja mig að því hvort ég telji rétt séu einhverjar vísbendingar um að þar hafi menn verið með illa fengið fé sem ekki hafi verið talið fram á ferðinni, þá tel ég alveg augljóst að slíkt eigi að skoða og ég tel íslenskum stofnunum ekkert að vanbúnaði að fara í þau mál,“ sagði Bjarni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert